Hvaða andskotans drullupólitík er eiginlega í gangi?

0
11359

Ásta Flosadóttir sauðfjárbóndi í Höfða í Grýtubakkahreppi ritaði harðorðan pistil á fésbókarsíðu sína í gærkvöldi sem vakið hefur mikla athygli. Í honum rekur hún stuttlega hvaða afleiðingar lækkun afurðaverðs hefur á hennar sauðfjárbú og svo skýtur Ásta föstum skotum á ráðherra landbúnaðarmála. Pistil Ástu má lesa hér fyrir neðan.

Þessa daga er mikið rætt um verðfall til sauðfjárbænda, og beturvitar fjasa um hagræðingu sem þurfi að eiga sér stað. Nú langar mig að segja ykkur sögu. Höfðabúið er býsna vel rekið sauðfjárbú, lagði inn rúmlega 800 lömb á síðasta ári, meðalvikt 16,2 kg sem gera rúmlega 13 tonn af lambakjöti. Höfðabúið er með mátulegt magn af greiðslumarki, 580 ærgildi fyrir þessa 600 hausa sem eru á fóðrum. Það þýðir að beingreiðslur sem Höfðabúið fær eru 544 kr á hvert innlagt kíló.

Við höfum tekið þátt í rekstarverkefni hjá RML, en niðurstöður úr því verkefni eru að flest búin sem tóku þátt kosta til framleiðslunnar á bilinu 800-1200 kr á hvert kíló. Höfðabúið kostaði 1049 krónum til á hvert kg árið 2016. Það þýðir að til þess að borga allann kostnað (þ.m.t. reiknaða endurgjaldið, þ.e. launin) þarf Höfðabúið að fá að lágmarki 505 kr á hvert kg fyrir innleggið. Nú í haust ætlar KS að skammta okkur um 360 kr/kg. Það þýðir að Höfðabúið er 2 miljónum króna undir því marki að reka búið á núlli. Launin sem Þorkell á að reikna sér skv. RSK eru 220 þúsund á mánuði, alls 2,6 miljónir á árinu. Það er nokkuð ljóst að lítið er eftir til að borga þessi laun. Nú þarf hann að bæta við sig ríflegri vinnu til að halda búinu á floti. Og hann er svo sannarlega ekki eini sauðfjárbóndinn í þeirri stöðu, margir eru mun verr staddir en við. Það eru ófáar fjölskyldur sem er haldið í kyrkingartaki og hert að.

Nú þykir mér fyrir löngu nóg komið. Nú verða andskotans afurðastöðvarnar að hagræða og standa í lappirnar á móti versluninni. Og mér er spurn; eru allar búðir landsins reknar af gráðugum glæpamönnum? Og eru allir stjórnendur afurðastöðva leiðitamir aumingjar??
Og hvað er eiginlega að frétta af þingmönnunum okkar og ráðherrum, á bara að láta landsbyggðunum blæða út með þessum hætti?

Á sama tíma höfum við landbúnaðarráðherra sem tókst að afskrifa 2 milljarða af einkaskuldum sínum, sem er u.þ.b. sama upphæð og þarf til að laga hinn svokallaða birgðavanda, og yfirbygging lífeyrissjóðanna kostar 14 milljarða á ári.

Hvaða andskotans drullupólitík er eiginlega í gangi??

Það er alla vega á hreinu að hér verður étið rollukjöt í vetur.