Húsdýragarðurinn Daladýrð í Fnjóskadal.

0
3156

Hjónin Birna Kristín Friðriksdóttir og Guðbergur Egill Eyjólfsson hafa nýlega opnað Húsdýragarðurinn Daladýrð, sem staðsettur er í Brúnagerði Fnjóskadal. Börnin þeirra Ingvar, Benedikt og Anna Kristjana vinna með foreldrum sínum við umhirðu og önnur tilfallandi verk. Brúnagerði er á milli Vaglaskógar og Illugastaða. Þarna gefur að líta öll helstu húsdýr s.s. hesta, kindur, hund, geitur með kiðlinga, grísi, ýmsar tegundir af hænum og hönum, kanínur og dúfu. Dúfan hefur fengið nafnið Dóra landkönnuður. Dóra kom fljúgandi inn til þeirra í Brúnagerði snemma í vor, hún hafði villst af leið og því skemmtileg tilviljun að hún skyldi koma í Brúnagerði. Úti eru tvö niðurgrafin trampólín og lítið bú fyrir börnin og fleiri leiktæki eru væntaleg. Mjög góð aðsókn hefur verið þessa fyrstu daga, sérstaklega um helgar, hjónin Beggi og Birna er því mjög ánægð með viðtökurnar. 

Lítil veitingaaðstaða er í afgreiðslunni og þar er hægt að setjast niður með kaffibolla, safa eða súkkulaði.

Birna sem er textílhönnuður er með opna vinnustofu, þar sem hún vinnur að sinni hönnun og framleiðslu sem gengur undir nafninu Gjóska, hún framleiðir peysur, húfur, trefla og fleira og er þetta afar vinsæl vara sem hefur vakið verðskuldaða athygli.

Þetta er tilvalinn staður til að stoppa með börnin og leyfa þeim að njóta sín bæði úti og inni. Gott er að hafa í huga, að það er oft betra veður inni í Fnjóskadal en sumstaðar annarsstaðar, bæði hlýrra og kyrrara.

Opið er virka daga frá kl.13:00-17:00, laugardaga og sunnudaga frá kl. 12:00-18:00.

Aðgangseyrir að garðinum er 800 kr. fyrir 3-12 ára en fyrir 13 ára og eldri er það 1.200 kr.