Hugleiðing frá Jónu Björgu

Oddviti Ð-lista Framtíðar skrifar

0
907

Framtíðin er hópur einstaklinga í Þingeyjarsveit sem býður fram til sveitarstjórnar í kosningunum núna 26. maí, sjálf heiti ég Jóna Björg Hlöðversdóttir og er oddviti listans. Ég bý á Björgum í félagsbúi með systur, mági og foreldrum með fjölbreyttan búskap. Ég gekk í Hafralækjarskóla, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri og útskrifaðist 2011 frá Landbúnaðarháskóla Íslands með BS gráðu í Búvísindum. Frá þeim tíma hef ég starfað við búskap á Björgum. Ég hef starfað mikið í félagsmálum í gegnum árin og er í dag formaður Samtaka ungra bænda og á sæti í varastjórn Bændasamtaka Íslands.

Framtíðin hefur lagt höfuðáherslu á þrjú mál í sinni stefnumótun, húsnæðismál, málefni leikskóla og umhverfismál. Önnur mál eru okkur einnig ofarlega í huga, samgöngur, sorpmál, málefni eldri borgara, brunavarnir og rekstur félagsheimila sveitarfélagsins. Stefnumál okkar má lesa í heild sinni inn á facebook-síðu framboðsins, www.facebook.com/xframtid

En eitt mál vil ég nefna alveg í upphafi. Ég velti fyrir mér hvort það sé hreinlega mannréttindabrot þegar hluti íbúa í Þingeyjarsveit, ég þar á meðal, þarf að fara um vegi í slíku ástandi að nýir bílar séu hreinlega ekki til þess búnir að keyra þar um og þeir skemmast með tilheyrandi kostnaði fyrir eigendur.  Hvað eigum við þá að gera þegar við erum búin að nota út úr þeim bílum sem enn geta keyrt holótta, mjóa, óslétta vegi með lausamöl?

Umhverfismál eru mér jafnframt ofarlega í huga, það er mér mikilvægt að Þingeyjarsveit móti sér metnaðarfulla umhverfisstefnu þar sem tekist er á við hver staðan er í umhverfi sveitarfélagsins í dag og hvernig við viljum skila okkar auðlindum til komandi kynslóða. Metnaðarfull umhverfisstefna er grunnverkfærið.

Hlutverk skógræktar sem viðbótar við landbúnað.

Landbúnaður er einn grunnatvinnuvegunum í Þingeyjarsveit, við ætlum að gera það sem í okkar valdi stendur til að sporna við frekari fækkun starfa í landbúnaði í sveitarfélaginu. Hægt er að auka  skógrækt verulega og við viljum skilgreina landbúnaðarland nánar með tilliti til hvaða land hentar undir skógrækt og hvað til jarðræktar eða til beitar.

Sem samfélag höfum við þá  skyldu að auka kolefnisbindingu og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Mikið er rætt um endurheimt votlendis í samfélaginu öllu, en að mínu mati eru mun skýrari upplýsingar til staðar um þá bindingu sem fæst með skógrækt en í endurheimt votlendis þar sem upplýsingar virðast óskýrari um núverandi losun úr framræstum mýrum, hve stór hluti þeirra t.d. hér í Þingeyjarsveit séu nýttar sem tún og hvort einhver tækifæri séu til raunverulegrar endurheimtar votlendis. Það mun ekki þjóna neinum tilgangi að rjúka af stað og moka ruðningum ofan í skurði, ef afraksturinn er ekki annar en sá að valda raski með átroðningi stórvirkra vinnuvéla.

Skógrækt er landbúnaður fyrir þá þolinmóðu, en með því að hefja skógrækt í dag skapast að auki atvinnutækifæri fyrir framtíðina.

Öldungaráð

Í Þingeyjarsveit var stofnað ungmennaráð á sínum tíma sem hefur ekki verið virkt síðustu árin og það viljum við endurvekja en jafnframt stofna Öldungaráð að fyrirmynd ungmennaráð sem væri  til ráðuneytis um málefni eldri borgara.

Hver  eru betur til þess fallin að undirbúa framtíðina fyrir þær kynslóðir sem á eftir koma  og móta stefnu samfélagsins um það hvernig tekið verður á móti okkur sem yngri erum  en öldungarnir?

Eldri borgarar eru vaxandi hópur fólks á breiðum aldri, sum fædd fyrir tíma kreppunnar stóru og hipparnir sem breyttu heiminum eru nú komnir á eftirlaunaaldur. Þarfir þessara hópa eru ólíkar svo ekki sé talað um þann breytileika sem finnst innan allra þjóðfélagshópa.

Það þarf að eiga gott samtal og samráð, og sérsníða þjónustuna að öllum einstaklingum.

Öldungaráð myndi hafa  fasta fundatíma og skila ráðgefandi álitum til sveitarstjórnar auk þess sem sveitarstjórn gæti vísað málum til umsagnar öldungaráðs.

Húsnæðismál

Það er markmið Framtíðarinnar að fjölga íbúum í Þingeyjarsveit. Á síðustu árum hefur hinsvegar verið skortur á íbúðarhúsnæði, lítið sem ekkert byggt enda byggingarkostnaður hár en fasteignamat í sveitarfélaginu lágt  og mjög mikil ásókn í það leiguhúsnæði sem þó er í boði. Það er stefna okkar að byggja leiguíbúðir á vegum sveitarfélagsins, á hagkvæman hátt, fyrir bæði sveitarfélagið og íbúa. Við teljum að það sé raun útilokað vegna fasteignaverðs bæði hér og annars staðar að hér  muni verða byggt á markaðsforsendum á næstu árum.

Framtíðin lifir

Í kjölfar kosninga verður stofnað félag  í kringum framboð Framtíðarinnar og þau stefnumál sem sett hafa verið fram. Félagið verður öllum opið og mun móta stefnu Framtíðarinnar til lengri tíma. Félagið á jafnframt að láta sig varða öll þau mál er snúa að hagsmunum sveitarinnar og vera ályktunarbært. Þannig viljum við skapa vettvang fyrir íbúa til að hafa áhrif á framtíð sveitarfélagsins. Stjórn félagsins skal á hverjum tíma vera að hluta skipuð sveitastjórnarfulltrúum Framtíðarinnar sé þeim til að dreifa.þetta verður svona til að tryggja tengsl sveitarstjórnarmanna við félagið. Félagið heldur fundi  þar sem öllum félögum  gefst færi á að móta starfið.  Það að búa í góðu samfélagi krefst þess af íbúum sínum að þeir leggi sitt af mörkum, með því að láta sig málin varða.

Mætum öll á kjörstað á laugardaginn og sjáumst á kosningavöku í Dalakofanum!

Með kveðju Jóna Björg Hlöðversdóttir, 1. sæti Framtíðarinnar