HSÞ – Íþróttanefnd fullorðinna félagsmanna

0
113

Á Ársþingi HSÞ 2015 var samþykkt að stofna nefnd fyrir fullorðna félagsmenn og var henni kosið nafnið „Íþróttanefnd fullorðinna félagsmanna“ – sem mætti skammstafa ÍFF. Hlutverk nefndarinnar er ekki enn fastmótað, en henni  er m.a. ætlað að hvetja fullorðna einstaklinga til hreyfingar og/eða  íþróttaiðkunar allt árið um kring.  Þar að auki að hvetja til þátttöku á Landsmótum UMFÍ. Frá þessu segir í pistli á vef HSÞ

HSÞ

Nefndin var loks skipuð að hausti 2015:        

Elín Sigurborg Harðardóttir formaður (elinsh@gmail.com)
Aðalheiður Kjartansdóttir (hk61@simnet.is)
Vilhelmína Ásdís Kjartansdóttir (asdiskja@visir.is)

Annars er það ekki endilega málið, að keppa og þurfa að standa sig eitthvað brjálað vel á íþróttamóti. Allra mikilvægast er að stunda reglulega hreyfingu, allt árið um kring, til að bæta lífsgæðin. Það er nokkuð klár staðreynd að það er verulega heilsusamlegt að stunda reglulega hreyfingu.

Líkaminn verður ekki bara hraustlegri og sterkari, heldur er hreyfing líka holl fyrir okkur andlega og við losum okkur við stress. Þetta snýst í raun um að líða vel í eigin líkama – og ekki bara á meðan við erum ung, heldur alla okkar ævi!

Það að taka þátt í Landsmóti UMFÍ 50+ eða í öðrum skipulögðum keppnum fyrir fullorðna snýst heldur ekki mest um að keppa – heldur það að taka þátt, hafa gaman af því að spreyta sig og njóta félagsskaparins. Sjötta Landsmót UMFÍ 50+ verður haldið á Ísafirði helgina 10. – 12. júní 2016 og stefnir nefndin að því að hafa spjallfund fyrir þá sem nú þegar eru ákveðnir að fara og hvetjum aðra til að koma og kynna sér málið. Spjallfundurinn verður auglýstur sérstaklega.

Á Landsmótinu á Ísafirði er stefnt að ýmsum keppnisgreinum: boccia, bridds, frjálsar, golf, línudans, pútt, ringó, skák, skotfimi, stígvélakast, sund, kappróður, kajakróður, badminton, körfubolti 2 á 2, starfshlaup, pönnukökubakstur, netabætingu og línubeitning. …. Svo að það er af nógu að taka og vel hægt að finna sér eitthvað skemmtilegt til að taka þátt í.  Síðan er á plani hjá þeim að hafa skemmtidagskrá og dansleik – þannig að þetta verður bara gaman! Nokkrir Þingeyingar hafa nú þegar reynslu af því að taka þátt í þessum landsmótum og var jú sérstaklega góð þátttaka á mótinu sem fram fór á Húsavík árið 2014.

Nefndin hvetur alla fullorðna til að finna sér hreyfingu við hæfi og er af nógu að taka þar sem víðast hvar í Þingeyjarsýslum er í boði skipulögð hreyfing – eða að fólk myndar bara sína hreyfihópa. Svo er ekkert að því að vera „einn í hóp“ !

Nefndin hefur skoðað hvað er í boði fyrir fullorðið fólk í okkar héraði – og það er hellingur!  Tökum það fram að þetta er engan vegin tæmandi listi;  Hreyfing fullorðinna í Þingeyjarsýslum

HSÞ