HSÞ er 100 ára í dag – Glæsileg afmælishátíð á sunnudaginn

0
160

Héraðssamband Þingeyinga HSÞ, er 100 ára í dag 31. október. Af því tilefni efnir HSÞ til 100 ára afmælishátíðar í íþróttahúsinu á Laugum í Reykjadal sunnudaginn 2. nóvember kl 14:00 sem er öllum opin. Á hátíðinni verður ma. boðið upp á glæsilegt kaffihlaðborð Kvenfélags Reykdælinga og margt verður til skemmtunar.

HSÞ
HSÞ

 

Meðal þess sem gestum verður boðið upp á er Glímusýning, þjóðdansaflokkurinn Þistilhjörtun sýnir þjóðdansa, flutt verður söguágrip HSÞ og flutt ávörp frá ÍSÍ og UMFÍ. Karlakórinn Hreimur og Sálubót syngja nokkur lög. Einstaklingar í héraði sem hafa unnið vel fyrir HSÞ á undangengum árum og áratugum verða heiðraðir í tilefni af 100 ára afmælinu og svo verður sögusýning með munum og minjum frá ýmsum íþróttaviðburðum á liðnum árum, sem gestir geta skoðað á afmælishátíðinni.

 

Í tengslum við afmælið verður gefið út 100 ára afmælisrit um sögu HSÞ og geta áhugasamir skráð sig fyrir eintaki af bókinni sem kemur út síðar á árinu. Ritstjóri þess er Björn Ingólfsson. Einnig geta gestir keypt ýmsan varning á samkomunni, eins og HSÞ-jakka, penna og dvd diska með landsmótunum sem haldin voru árin 1946,1961 og 1987. Einnig verða til sölu nokkur eintök af 50 ára sögu HSÞ sem kom út árið 1965.

Þingeyingar eru hvattir til þess að mæta á afmælishátíðina á sunnudaginn og fagna aldarafmæli HSÞ.