Hrútar – Tökur hefjast í Bárðardal á morgun

0
266

Tökur á nýrri Íslenskri kvikmynd, Hrútar, í leikstjórn Gríms Hákonarsonar (Hvellur) hefjast í Bárðardal á morgun og standa fram til 2. september. Með aðalhlutverk í myndinni fara þeir Sigurður Sigurjónsson (Spaustofan, Afinn) og Theodór Júlíusson (Mýrin, Eldfjall). Vel hefur gengið að fá aukaleikara úr Bárðardal og nærsveitum til þess að vera við tökur á nokkrum hópatriðum í Bárðardal í vikunni, ma. við tökur á hrútasýningu 20-21. ágúst og við tökur á jarðarför og erfidrykkju 22 ágúst.

Sigurður Sigurjónsson í eldhúsinu á Bólstað. Mynd: Sturla Brandth Grovlen
Sigurður Sigurjónsson í eldhúsinu á Bólstað. Mynd: Sturla Brandth Grovlen

Að sögn Evu Sigurðardóttur framkvæmdastjóra hefur allur undirbúningur vegna myndarinnar gengið vel og hafa aðalleikarar myndarinnar fengið þjálfun í umgengni við sauðfé og þó aðalega hrúta undanfarna daga. Hrútar geta verið óútreiknanlegir í hegðun og erfitt getur verið að fá þá til þess að haga sér eins og til er ætlast, en Eva er bjartsýn á að tökur með atriðum þar sem hrútar koma við sögu, gangi að óskum.

Hrútar frá Halldórsstöðum í Bárðardal verða í aðalhlutverki í myndinni. Mynd Bergljót Þorsteinsdóttir
Hrútar frá Halldórsstöðum í Bárðardal “leika” í myndinni. Mynd Bergljót Þorsteinsdóttir

Í nóvember nk. eru áætlaðar tökur á atriðum sem eiga að gerast að vetralagi og er reiknað fastlega með því að þá verði kominn snjór í Bárðardal.

Með önnur helstu hlutverk í myndinni fara þau Charlotte Bøving, Þorleifur Einarsson, Sveinn Ólafur Gunnarsson, Gunnar Jónsson, Ingrid Jónsdóttir, Viktor Már Bjarnason, Jörundur Ragnarsson, Þorsteinn Gunnar Bjarnason og Jónas Sen.
Einnig fara Ólafur Ólafsson, Anna Sæunn Ólafsdóttir, Jón Friðrik Benónýsson og Jenný Lára Arnórsdóttir með hlutverk í myndinni – en þau eru öll úr héraði.
 
Kvikmyndin er framleidd af Grímari Jónssyni (Brim) og framleiðslufyrirtæki hans Netop Films. Áætlað er að kvikmyndin verði frumsýnd haustið 2015. 

Facebook: www.facebook.com/ramsfilm

Hrútar. Mynd: Sturla Brandth Grovlen
Hrútar. Mynd: Sturla Brandth Grovlen