Hrútar boðnir upp á Raufarhöfn

0
73

Hinn landsþekkti Hrútadagur  var haldinn hátíðlegur á Raufarhöfn nýlega. Að venju lagði fjöldi fólks leið sína til Raufarhafnar til að skoða og jafnvel kaupa verðlaunahrúta. Sá besti fór á kr. 85.000,-. Markaðsverð á góðum hrút er um 27 þúsund. Reyndar voru menn á því að töluvert færri hefðu komið á hrútadaginn í ár miðað við síðustu ár. Helsta ástæðan fyrir því er væntanlega sú að bændur hafa notað síðustu daga til að fjárleita og því ekki haft tíma til að fara á hrútadaginn.

Þessi hrútur var boðinn upp á staðnum. Ekki er vitað hvort hann seldist.
Mynd:Aðalsteinn Árni Baldursson.

Það var ekki bara að boðnir væru upp lifandi hrútar heldur voru einnig í boði manngerðir hrútar eftir listakonuna Aðalheiði S. Eysteinsdóttir. Þá var boðið upp á sögurölt um Raufarhöfn og Heimskautagerðið. Afhjúpað var listaverk við Óskarsstöðina til heiðurs síldarstúlkunum sem söltuðu síldar á síldarárunum á Raufarhöfn. Erlingur bauð upp á hlaðborð á Hótel Norðurljósum og hagyrðingar fóru á kostum um kvöldið í Félagsheimlinu Hnitbjörgum. Góður dagur endaði svo með hörku balli í félagsheimilinu þar sem Dansbandið frá Akureyri hélt uppi gargandi stuði fram eftir nóttu.

Nánar hér