Hlutverk skógræktar í landnýtingu

0
47

Hin síðari ár hefur skógrækt hér á landi orðið mun sýnilegri en áður þar sem skógurinn er að vaxa og víða orðin það öflugur að hann er farin að setja svip á „landið“. Þetta hefur skapað mikla umræðu um hvort rétt sé að nýta svo „mikið“ land undir skóg og raun ber vitni um. Að sjálfsögðu hefur fólk mismunandi skoðanir á þessu en það er þó ljóst að skoðanir almennings á þessu breytast með vexti skógarins, breytast í þá veru að fleiri og fleiri líta á skóg sem sjálfsagðan hluta af náttúru landsins. Fólk upplifir þau miklu áhrif sem skógurinn og skjólið hefur á lífríkið og það upplifir aukin fjölbreytileika sem skógurinn orsakar. Tækifæri til útiveru verða fjölbreyttari.

Björn Halldórsson
Björn Halldórsson

Erlendar fyrirmyndir

Víða erlendis er skógrækt veigamikill þáttur í landnýtingu. Þáttur sem í mörgum löndum skapar fjölda starfa og tekjur bæði fyrir landeigendur, úrvinnslu og samfélagið. Alla jafna er skógræktin vel skipulögð og reynt að hámarka mögulegan afrakstur.

Ekkert er því til fyrirstöðu að hér á landi megi vinna á svipaðan hátt. Reynsla síðustu áratuga auk margvíslegra rannsókna sýna að hér má auðveldlega rækta ýmiskonar nytjaskóg. Með nytjaskógi er átt við t.d. viðarframleiðslu, skjólbelti, útivistarskóg, landgræðsluskóg og verndun birkiskóga.

 

Það eru sem betur fer sífellt fleiri sem skilja þetta og þeim á eftir að fjölga eftir því sem árangur plöntunar síðustu ára og áratuga verður betur sýnilegur.

Á allra næstu árum verður að skipuleggja nákvæmar hvernig nýta skuli land það sem við höfum til ráðstöfunar hér á landi. Þó okkur finnist erfitt að gera okkur í hugalund að einn góðan veðurdag verði búið að binda stóran hluta ræktanlegs lands til margvíslegra nota stefnir þó allt í þá átt.

Skipuleg nýting lands

Það hlýtur að vera skynsamlegast að vinna skipulag fyrir nýtingu landsins þar sem stefnt er að eins miklum afrakstri af landinu og kostur er án þess að ganga á gæðin. Við gerð slíks skipulags verður að taka tillit til margra þátta en meginstefið hlýtur þó að vera að halda því landi sem best er fallið til matvælaframleiðslu í matvælaframleiðslu. Það land sem þá er eftir er líklegast að nýta megi til beitar eða skógræktar.

Þar sem stór hluti sumarbeitar sauðfjár nú á dögum er annað hvort á „hálendinu“ eða á afgirtu landi á láglendi er augljóslega mikið rými fyrir skógrækt.

Þeir sem stunda skógrækt hugsa í áratugum á meðan að þeir sem stunda matvælaframleiðslu hugsa í árum. Af þessu leiðir að það er alla jafna fólk sem er tengt náttúrunni sem stundar skógrækt. Fólk sem er tilbúið að leggja mun meira á sig en það mun nokkurn tíman fá tækifæri til að uppskera sjálft. Kannski er það ein af skýringunum á því að öll stærstu skrefin í skógrækt á Íslandi hafa verið stigin þegar vinstri menn hafa verið við völd í landinu.

Hver eru hin hagrænu áhrif af skógrækt?

Í MSc verkefni Lilju Magnúsdóttur eru m.a. metin áhrifin af landshlutabundnu skógræktarverkefnunum á atvinnu. Þar kemur fram að verkefnin eru þegar að skapa yfir 90 ársverk og í farvatninu er mun meira þar sem grisjun skóganna er rétt að hefjast. Allt eru þetta störf sem unnin eru á landsbyggðinni og stærstur hluti þeirra af bændum sem hafa skógrækt sem viðbót við annan búrekstur.

Vert er að velta því fyrir sér hvort sé farsælla til lengri tíma að skapa atvinnu við skógrækt sem byggir á skipulagðri og sjálfbærri nýtingu landsins og færir komandi kynslóðum auðnýtanleg verðmæti eða t.d. með stóriðju þar sem færa þarf fórnir vegna stundarhagsmuna t.d. í formi mengunar eða „drekkingar“ lands. Dæmi hver fyrir sig, í mínum huga er valið einfalt.

Björn Halldórsson

Höfundur skipar 5. sæti á lista Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi