Hjólreiðamaður heppinn að vera á lífi

0
155

„Ég held að hann hafi verið glaður með að hafa komist í hús áður en veðrið skall á,“ segir Guðrún Sveinbjörnsdóttir, húsfreyja á Mýri í Bárðardal í S-Þingeyjarsýslu, en þýskur maður bankaði upp á hjá þeim seint á sunnudagskvöld. Hann var að koma hjólandi niður af Sprengisandi.

Mýri er innsti bær í Bárðardal og þeir sem fara um Sprengisand fara því framhjá bænum. Guðrún átti ekki von á ferðamönnum þegar hún heyrði bankað seint sl. sunnudagskvöld. „Þá var komið kolamyrkur og grenjandi rigning, en enginn ofsakuldi. Maðurinn var að koma hjólandi af Sprengisandi. Hann sagðist hafa ætlað að biðja um að fá að tjalda, en við drifum hann inn í hús og svo var hann bara með okkur í þessu standi sem við tók,“ sagði Guðrún. (mbl.is segir frá.)

Maðurinn er 28 ára gamall tölvufræðingur frá Berlín. Hann dvaldi á Mýri í þrjá daga og var orðinn eins og einn af heimilismönnum. Kristó, eins og Guðrún kallaði hann, var orðinn kaldur á höndunum þegar hann bankaði upp á, en að öðru leyti í þokkalegu ástandi. „Það skall hins vegar á stórhríð um nóttina og ef hann hefði ekki hefði verið kominn í þennan náttstað þá hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum.

Við fórum síðan að velta fyrir okkur hvort það væru fleiri á ferð þarna uppi á sandinum. Það er voðalegt þegar menn eru að fara aleinir yfir sandinn á þessum tíma þegar öll umferð er dottin niður og allra veðra von. Hann hafði heppnina með sér blessaður maðurinn.“

Tók þátt í að draga fé úr fönn

Eftir að óveðrinu slotaði fóru Guðrún og Tryggvi Höskuldsson, eiginmaður hennar, að huga að fé á bænum og draga það sem var fast í fönn. Kristó var drifinn í galla og tók þátt í þessari vinnu. „Hann hefur sjálfsagt aldrei upplifað annað eins,“ sagði Guðrún.

Rafmagnslaust var á Mýri í tvo sólarhringa og búið er að vera símasambandslaust meira og minna það sem af er vikunnar. Guðrún sagðist ekki hafa upplifað svona alvarlega rafmagnsbilun í 40 ár og ekki hafa verið undirbúin undir að takast á við þetta. Eldamennskan hefði því verið fátæklega þessa daga og frekar kalt í bænum.

Guðrún og Tryggvi voru búin að taka um 200 lömb frá sem áttu að fara í sláturhús á mánudaginn. Þau voru á túni skammt frá bænum. Mikill klaki hlóðst hins vegar á girðingar í óveðrinu og þær lögðust því á hliðina og féð hraktist því lengra frá bænum undan veðrinu. Guðrún sagðist telja að þeim hefði, með aðstoð Kristós, tekist að hafa upp á þeim flestum.

Bændur á Mýri fengu enga aðra aðstoð við þessa vinnu. Guðrún sagði að fólk sem þau leituðu stundum til með hjálp hefði verið önnum kafið við að bjarga sínu fé. Hún sagði að þau hefðu ekki einu sinni haft síma sem virkaði til að kalla eftir hjálp.

Kristó fór frá Mýri í gær. Hann tók sér ferð með flutningabíl sem sótti sláturlömb að bænum. Aðstæður fyrir hjólreiðamenn hafa ekki verið góðar í Bárðardal í þessari viku þar sem allt er á kafi í snjó. mbl.is