Hin öfgafulla forræðishyggja hefur valdið ferðaþjónustunni verulegu tjóni

0
126

Frá upphafi eldgoss hafa ferðaþjónustuaðilar á Norðurlandi sem hafa um árabil starfað á hálendinu norðan Vatnajökuls gagnrýnt gegndarlausar og að þeirra mati oft ástæðulausar lokarnir svæða og einnig  það að ekkert samráð hefur verið haft við þessa aðila sem hafa hvað mesta reynslu og þekkingu á umræddu svæði. Einn þeirra er Rúnar Óskarsson sem starfrækir Fjallasýn og hefur gert af fádæma elju lengi og m.a. verið brautryðjandi í vetrarferðamennsku á svæðinu. Hann hefur ekki mikið viljað tjá sig um þessi mál til þessa en gerði það svo á dögunum í kjölfar fundar sem lengi hafði verið beðið eftir en skilaði engri niðurstöðu, að sögn Rúnars. Skarpur á Húsavík ræddi við hann um málið á dögunum.

Rúnar Óskarsson
Rúnar Óskarsson

„Það var strax 17. ágúst sem óvissa myndaðist þegar Öskjuleið um Herðubreiðarlindir var lokað, en þó leyft að fara um Krepputungu, reyndar með eftirgangsmunum. Tveimur dögum síðar, að kvöldi 19. ágúst, var svo hálendinu norðan Vatnajökuls lokað. Og þar með ekki lengur heimilt að fara með ferðafólk þessar hefðbundnu leiðir t.d. í Öskju, þó ekki stæði til að fara með fólk nálægt Bárðarbungu eða jökli.

Þarna var auðvitað ákveðin óvissa um mögulega atburðarás, í kjölfar aukinnar virkni í kringum Bárðarbungu. En um leið komin ákveðin tilhneiging til að teikna sem stærstu og hrikalegustu myndir og mögulega framgangsmáta. Og miðað við þekkingu manna á þessu eldfjallakerfi þá voru litlar líkur á að færi t.d. að gjósa í Öskju. Það er athyglisvert að á þessum tímapunkti (virkni kvikugangsins hafin) komu líka fram ábendingar vísindafólks um líklegan framgang, sem síðan gekk eftir norðan við jökul. Enda ýmislegt sem bendir til að svipað hafi gerst amk tvisvar áður (Holuhraun I og II).

Nú, nú. Þann 23. ágúst var svo þessi stóra allsherjar rýming í Jökulsárgljúfrum, sem að mínu mati var alveg forkastanleg. Þegar þarna var komið  var hreinlega búið að rýma frá jökli og fram í sjó. Menn fóru þarna fram með ótrúlegu offorsi og ferðafólk í Kelduhverfi var t.d. rekið inn í Eyjafjörð.

Þetta er dagurinn þar sem mælar sýndu að mögulegt gos væri hafið undir jökli, en engin merki sáust þó á yfirborðinu fyrr en nokkrum dögum seinna. Og engin varð vatnsaukningin í Jökulsá. Og þó svo að áfram hefði gosið undir jökli, þá hefðu menn haft nægan tíma til að komast burt ef vatnsmagn hefði hækkað í Jökulsá og jafnvel endað með flóði.

Það er reyndar umhugsunarefni að á meðan býsna stórum hluta landsins hafði verið lokað, var t.d. í lagi að fara þvers og krus um Vatnajökul, þar með talið um Bárðarbungu.  Burt séð frá öllum skynsemisrökum.“ Sagði Rúnar.

Múgæsing en ekki rök réðu ferðinni

-Er ekki ástæðan einfaldlega sú að þeir sem tóku ákvarðanir gengu út frá verstu hugsanlegu sviðsmynd, að allt sem gæti farið á versta veg myndi gera það, hversu fráleitt sem það í raun væri? Að menn vildu ekki bara hafa vaðið,  heldur öll hugsanleg vöð fyrir neðan sig í þessum efnum?

„Það er mjög sennilegt. En ef þessi hugsun væri ríkjandi almennt, þá væri engin ferðaþjónusta í gangi víða um land. Alls ekki á hálendinu þar sem aðstæður geta verið ólíkar því sem fólk á að venjast og t.d. veður geta breyst með litlum fyrirvara. Því miður geta slys orðið og útilokað  að fyrirbyggja þau algjörlega. Ekki einu sinni með því að loka tilteknum stöðum og svæðum.

Það læðist líka að manni sá grunur að athygli vísindageirans hafi undanfarið verið meiri á önnur eldstöðvakerfi og því hafi myndast meira „panik ástand“ en ella. Það er líka ágætt að gera greiningar og áætlanir, eins og nú er búið að gera, en grunnurinn í þeim þarf þó að vera byggður á raunhæfni og yfirvegun.

Það er þessi öfgafulla forræðishyggja langt umfram það sem eðlilegt getur talist sem við erum að mótmæla og erum ósáttir við. Menn hafi ekki verið að vinna út frá  rökum og skynsemi heldur réði einhverskonar múgæsing ferðinni frá upphafi hjá aðgerðastjórn og vísindamönnum  og fjölmiðlarnir dönsuðu með og hömpuðu mest þeim sem gat yfirtrompað aðra með hrikalegustu „sviðsmyndunum“  svokölluðu.

Við búum í þannig landi að við getum ekki leyft okkur að fara á taugum eins og gert var í sumar og þær stofnanir sem að þessum aðgerðum stóðu, viðurkenna engin mistök enda ekki lenska hjá stofnunum á Íslandi og þar með er erfitt að leiðrétta eða draga til baka vitlausar ákvarðanir.

Það er til dæmis ekki enn búið að opna Jökulsárgljúfur (að vestan norðan Dettifoss), þ.e.a.s það er t.d. búið að vera lokað í Vesturdal (Hljóðakletta) síðan 23. ágúst! Og leiðin að Öskju er enn lokuð og hefur verið allan tímann. Það er búið að margræða og reyna að fá að fara að völdum mögulegum útsýnisstöðum, jafnvel í verulegri fjarlægð frá gosstöðvunum og utan ítrasta flóðasvæðis. En ekkert gengur.“

Þurftum að sækja allt suður

-Rúnar, þið ferðaþjónustuaðilar voruð að kvarta, gera athugasemdir og senduð inn erindi fljótlega eftir að lokanir hófust. Hafði þetta engin áhrif?

„Við erum stöðugt að vinna í þessu og sífellt að bíða eftir svörum og breytingum á þessu mikla inngripi. En gjarnan hefur verið vísað frá einum aðila til annars og raunar í einhverjum tilfellum erindum ekki svarað.

Aðgerðastjórn hér fyrir norðan hefur of lítið viljað tala við okkur beint. Í september var tekin ákvörðun um að samskiptin ættu að fara í gegnum SAF og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.  Þannig að menn þurfa að sækja allt suður, samskipti og upplýsingar. Eins og það er nú þægilegt.

En samráðsleysið hér heima fyrir hefur verið algjört frá upphafi. Til dæmis var aldrei leitað upplýsinga eða ráða hjá okkur sem höfum verið á ferðinni þarna efra árum saman og þekkjum þetta svæði betur en flestir.

Fyrstu sólarhringana eftir að gosið hófst kom ferðaþjónustan aldrei  upp í huga þeirra sem voru að loka hér öllu og það  gerðist ekki fyrr en við vorum búnir að minna rækilega á okkur, og þá í gegnum Markaðsstofu Norðurlands. Og síðan vildu menn hér ekkert við okkur fyrirtækin tala heldur vísuðu á heildarsamtökin sem eru auðvitað fyrir sunnan eins og allt annað, þannig að þetta hefur allt verið gert eins fjarlægt og erfitt og hægt er.

Nú, við biðum svo í tvo og hálfan mánuð eftir fundum sem haldnir voru á Akureyri og Húsavík fyrir skömmu og þar vorum við að vonast eftir að fá einhver svör við öllum þeim spurningum sem á okkur hafa brunnið. En Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarnardeildar, sem hafði boðað komu sína þangað, lét svo ekki sjá sig og sendi í sinn stað undirmann sem hafði eðlilega engin svör.“

Tjón vegna óskynsamlegra aðgerða

-En fáið þið ekki bætur? Þetta er tap í atvinnustarfsemi vegna náttúrhamfara, og væntanlega skiptir ekki máli hvort það eru bændur eða ferðaútvegsaðilar sem verða fyrir tjóni af völdu eldgosa, beint eða óbeint?

„Jú, ég tel það alveg borðliggjandi. Þó í þessu tilfelli sé tjónið kannski fyrst og fremst vegna óskynsamlegra aðgerða í kjölfar náttúruhamfara en t.d. ekki vegna öskufalls eins og varð hjá bændum í Eyjafjallajökulsgosinu eða vegna þess að fé fennir í óveðrum. En mér fyndist það stórundarlegt ef við ættum ekki rétt á bótum en það hefur ekki verið fullkannað.

Þetta hefur að sjálfsögðu leitt af sér mikið tekjutap, því þetta eru svona þrír mánuðir sem eru aðaltíminn á svæðinu að jafnaði og þarna var einn mánuður alveg tekinn af. Einnig hafa aðilar sem selja gistingu og mat austan Húsavík örugglega misst töluverð viðskipti vegna þessa gegndarlausa hræðsluáróðurs og lokana. Þá bendir ýmislegt til þess að við Norðlendingar séum að fá færri ferðamenn þessa síðustu mánuði ársins en í fyrra, þrátt fyrir einmuna tíð og fjölgun inn í landið.

Atburðarásin sem slík, þ.e.a.s. eldgos í þetta langan tíma, er eitt, en yfirgripsmiklar tæknilegar hindranir eru annað.

Allan þennan tíma hefur mikil vinna farið í að svara fyrirspurnum, fyrst frá þeim sem áttu bókaðar ferðir eða ætluðu t.d. að fara í Öskju. Og svo auðvitað mikill áhugi erlendis frá að komast að eldstöðvunum.

Og þannig er staðan sem sagt í dag. Í ferðaþjónustunni þurfa menn að plana fram í tímann eins og kunnugt er. En á þessu stigi vitum við t.d. ekkert hvað menn hafa í hyggju varðandi ferðir inn á þetta svæði ef gosið heldur áfram og ástandið verður óbreytt í vetur og næsta sumar. Hvaða „sviðsmyndir“ hafa menn sett upp varðandi ferðaþjónustuna, sem allir eru raunar að mæra sem einn mikilvægasta atvinnuveg þjóðarinnar þessa dagana, ef gosið heldur áfram mánuðum og jafnvel árum saman?

Það vitum við einfaldlega ekki. Óvissan hvað okkur ferðaþjónustuaðila varðar er einfaldlega algjör, þrátt fyrir allar  hugmyndir sem aðgerðastjórn og vísindamenn hafa dregið upp. Hvað okkur varðar virðist engin „sviðsmynd“ vera til.“sagði Rúnar Óskarsson hjá Fjallasýn. JS

Viðtal þetta birtist í Skarpi í desember 2014.