Heildarkostnaður vegna framkvæmda á Þingeyjarskóla nam 62,5 milljónum

0
69

Á 182. fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar sem haldinn var 10. desember sl. var viðauki við fjárhagsáætlun árins 2015 lagður fram. Í viðaukanum kemur fram að skatttekjur hækkuðu um 25.000.000 króna á árinu 2015. Hækkun varð á útgjöldum til fræðslumála um 17.000.000 króna. Hækkun varð á útgjöldum til atvinnumála um 2 milljónir króna og hækkun varð á vilhalds og endurbótakostnaði (eignasjóður) um 25.000.000 króna á árinu 2015.

Þingeyjarsveit stærra

Fram kemur í fundargerð 182 fundar að hækkun skatttekna sé vegna aukinna útsvarstekna og að hækkun útgjalda í fræðslumálum sé vegna launahækkana kennara og skólastjórnenda.

Hækkun útgjalda í atvinnumálum er vegna launaliðar í Seiglu – miðstöð sköpunar og hækkun í eignarsjóði vegna viðhaldskostnaðar og fjárfestinga við Þingeyjarskóla.

Fram kemur í fundargerðinni að heildarkostnaður við framkvæmdir í Þingeyjarskóla á Hafralæk árið 2015 sé 62,5 milljónir króna.

Oddviti lagði fram eftirfarandi bókun:

„Hluti af 25 m.kr. viðauka vegna framkvæmda við Þingeyjarskóla er til kominn vegna viðhaldskostnaðar en ekki að öllu leyti vegna samþykktrar kostnaðaráætlunar endurbóta. Viðhaldsframkvæmdir snúa að viðgerð á þaki, kælibúnaði vegna tjóns sem var tryggt auk almenns viðhalds samtals 14 m.kr. Okkur er þó ljóst að kostnaður vegna málningar- tölvu- og rafmagnsvinnu fór framúr samþykktri kostnaðaráætlun samtals 11 m.kr. Þetta eru verkþættir sem talið var hagkvæmt að fara í hvað kostnað varðar til lengri tíma litið. Fulltrúar A lista telja að framkvæmdir og viðhald við Þingeyjarskóla hafi tekist í alla stað mjög vel og bætt aðstöðu fyrir nemendur og kennara til mikilla muna.“

Fulltrúar T lista lögðu fram eftirfarandi bókun:

„Fulltrúar T lista sitja hjá við atkvæðagreiðslu um viðauka við fjárhagsáætlun Þingeyjarsveitar 2015. Það er óviðunandi að fjáraustur til Þingeyjarskóla við Hafralæk fari svo gríðarlega fram úr áætlunum sem raun ber vitni. Fulltrúar T-lista minna á að þegar ákveðið var að flytja allt skólahald Þingeyjarskóla í starfsstöðina að Hafralæk var gert ráð fyrir að kostnaður endurbóta húsnæðisins yrði innan við tuttugu milljónir.“

Fulltrúar A lista lögðu fram eftirfarandi bókun:

„Fulltrúar A lista ítreka að áætlaður kostnaðar vegna framkvæmda við Þingeyjarskóla á Hafralæk var 37,5 m.kr. samber samþykkt meirihluta sveitarstjórnar á 172. fundi hennar þann 4. júní s.l.“

 

Sveitarstjórn samþykkti framlagða viðauka við fjárhagsáætlun 2015, með fimm atkvæðum fulltrúa A lista, hækkun útgjalda samtals að fjárhæð 19 m.kr. og að þeirri upphæð verði mætt með lántöku.

Fulltrúar T lita sátu hjá.

Fundargerð 182. fundar.