Hátíðarræða á 17. Júní

0
290

Hanna Þórsteinsdóttir flutti hátíðarræðu á þjóðhátíðardaginn 17. Júní í á Laugavelli í gær. Hér fyrir neðan má lesa ræðuna.

Hanna Þórsteinsdóttir. Mynd: Konráð Erlendsson
Hanna Þórsteinsdóttir. Mynd: Konráð Erlendsson

Kæru sveitungar og aðrir gestir

Gleðilega þjóðhátíð.

Það er mikill heiður að fá að tala hér í dag.

Í ár höldum við upp á 100 ára kosningarafmæli íslenskra kvenna og er það því vel við hæfi að hér standi ég, konan, og fari með hátíðarræðu þessa árs.

 

 

Það er grundvallarforsenda lýðræðisins að hafa kosningarrétt og fyrir hann getum við öll verið þakklát.

Bríet Bjarnhéðinsdóttir, sú kjarnakona, var afar umdeild á sínum tíma. Það er í rauninni ekki hægt að halda ræðu hér í dag án þess að minnast hennar. Hún mætti mikilli mótspyrnu en var skörungur og það er henni að þakka að við stöndum hér og höldum upp á þetta kosningarafmæli íslenskra kvenna. Hún, ásamt fleiri konum, stóð fyrir fyrsta kvennaframboðinu á Íslandi. Hún var einnig stofnandi Kvennablaðsins árið 1895 en það tímarit var hennar aðalvopn til að vekja konur til vitundar um réttleysi sitt.

Eftirfarandi orð voru rituð í Kvennablaðið í febrúar árið 1913:

Sýnum öllum landslýð, að í þessu máli séum vér sameinaðar. Auðugar og fátækar konur, ungar og gamlar, mentaðar og fákunnandi, yfirstéttakonur og alþýðukonur! tökum allar saman höndum, ritum allar sem ein undir þá áskorun til þingsins í sumar, að það breyti nú þegar stjórnarskránni þannig, að vér fáum sömu stjórnarfarsréttindi sem karlmenn. Látum ekkert aftra okkur að vera með, því sameinaðar sigrum vér, en sundraðar föllum vér.

Þessi orð færðu okkur það sem við höfum í dag. En auðvitað ekki bara þessi orð heldur elja og kjarkur margra einstaklinga, sem við gætum öll tileinkað okkur. Í mínum huga sameinast hér í þessum fáu orðum samheldni, sameining og kærleikur. Hér eru allar konur landsins jafnar. Engin er betri en önnur.

Samheldni og sameining hlýtur að skipta öllu máli þegar við, sem hópur, hvort sem það er þjóðin öll, eitt sveitarfélag, einn minnihlutahópur eða hvað, brjótumst út úr einhverju og inn í breytt ferli. Það að geta sameinast um eitthvert ákveðið verkefni, einhverja hugsjón eða framtíðarsýn hlýtur að fleyta okkur í gegnum erfiða tíma, erfiðar breytingar og umræður.

Hugsið ykkur átökin – konur vildi fá orðið. En þær stóðu saman þessar og náðu árangri.

Það hefur ótrúlega margt unnist í feminískri kvennabaráttu á Íslandi síðan Bríet fór, undir dulnefni í fyrstu, að skrifa um réttleysi kvenna. Við höfum farið í gegnum tvær bylgjur feminismans og erum stödd í þeirri þriðju. Jafnvel að sigla inn í þá fjórðu miðað við kjark og þor ungu kynslóðarinnar sem nú sameinast um að frelsa sig, valdefla sig og opna sig. Þau eru að ryðja brautina fyrir aðrar þjóðir og næstu kynslóðir– rétt eins og Bríet gerði. Sá kjarkur og sú sameining er aðdáðunarverð þó hún valdi gömlum feministum eins og mér einstaka svitakasti við tölvuna.

Það er þó kannski eitt sem hræðir okkur mörg. Og það er, að það sem einkennir umræðu á Íslandi í dag er kannski ákveðin vonska. Það er orðið svo auðvelt að sitja heima við tölvuna og láta orð falla sem við myndum aldrei segja við manneskju augliti til auglitis. Við höfum örugglega mörg staðið okkur að því að láta eitthvað flakka í einhverri umræðu á netinu, eitthvað sem við getum síðan ekki staðið undir. Það getur verið svo flókið að takast á um málefni og skilja manneskjurnar eftir. En viljum við svoleiðis umræður? Þar sem við jörðum hvort annað, séum við óssammála?

Vantar þá ekki allan skilning, sameiningu og kærleika?

Það er ár síðan við fjölskyldan fluttum aftur í dalinn, gömlu sveitina okkar, eftir að hafa verið annars staðar í 12 ár. Það hefur að mörgu leyti verið afar ánægjulegt að koma aftur en eins og við vitum öll hefur þessi vetur þó reynst mörgum erfiður, langur og strangur. Við erum að ganga í gegnum miklar breytingar sem hafa leitt af sér átök og erfiðar umræður um viðkvæm málefni. Slíkar breytingar eru alltaf flóknar og erfiðar og það er sárt að horfa upp á gömlu sveitina sína í sárum.

Við megum samt ekki gleyma því að í þessum breytingum, sem öðrum, felast líka tækifæri. Við megum ekki gleyma því að takast á um málefnið en ekki manneskjur. Við megum ekki gleyma kærleikanum.

Ég trúi því að við höfum öll sömu framtíðarsýn fyrir sveitina okkar. Sú sýn er fögur og full af gleði. Við viljum öll réttlátt og sterkt samfélag þar sem okkur getur öllum liðið vel. Leiðin að því markmiði – það er það sem við getum tekist á um, rætt fram og til baka, verið sammála eða óssamála um.

Við höfum alla burði til að koma sterk út úr þessum breytingum vegna þess að þessi dalur eru einmitt fullur af kæleika. Okkur þykir öllum vænt um hvort annað – það höfum við upplifað oft áður og eigum eftir að upplifa margoft aftur.

Kannski er það ákveðin barnsleg einfelndi, mér er svo sem sama þó það hljómi þannig, en ég held að við getum verið fordæmisgefandi fyrir aðra hópa sem finnast þeir þurfa að berjast fyrir rétti sínum. Ég held að ef við sameinumst um framtýðarsýnina okkar, höldum fast í kærleikann, væntumþykjuna og hlýjuna sem býr hér í dalnum þá getum við allt. Við getum búið til samfélag þar sem allir skipta máli og öllum getur liðið vel. Við erum nefnilega, eins og hún Bríet, bara ansi flott!

Mér finnst viðeigandi að enda þennan ræðustúf á þessum fallegu orðum um kærleikann.

Þótt ég talaði
 tungu manna og engla 
en hefði ekki kærleika yrði ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla
og þótt ég hefði spádómsgáfu
 en hefði ekki kærleika
ég væri ekki neitt.

Og þótt ég hefði svo sterka trú
að færa mætti fjöll úr stað
en hefði ekki kærleika
ég væri ósköp snauður og þótt ég deildi út öllum eigum mínum
 og framseldi líkama minn
en hefði ekki kærleika þá væri ég engu bættari.

Kærleikur trúir öllu
 kærleikur vonar allt kærleikur, hann umber allt 
og fellur aldrei úr gildi.

Takk fyrir mig!

Og góða skemmtun í dag.