Handverkskonur milli heiða hlutu Landbúnaðarverðlaunin

0
109

Landbúnaðarverðlaunin 2013 voru veitt nú við setningu búnaðarþings fyrr í dag. Að þessu sinni hlutu bændurnir í Laxárdal II og handverkshópurinn Handverkskonur milli heiða verðlaunin sem Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvega og nýsköpunarráðherra veitti.

Mynd: Hörður Kristjánsson
Mynd: Hörður Kristjánsson.

Handverkskonur milli heiða eru félagskapur sem stofnaður var í mars 1992 af konum í Bárðardal, Ljósavatnshreppi og af bæjum í Reykdælahreppi vestan Fljótsheiðar.  Strax í næsta mánuði bættust konur í Hálshreppi við og þá varð nafnið á félaginu; Handverkskonur milli heiða. Tildrögin að þessum félagsskap má rekja til þess að eftirspurn var eftir minjagripum – vörum úr heimabyggð, ekta íslenska minjagripi og annað handverk.  Það var úr að nokkrar konur tóku sig saman um að láta reyna á það hvort vilji væri fyrir því að stofna félagsskap til að vinna að íslensku handverki og selja það við Goðafoss. Nú er félagssvæðið öll Þingeyjarsveit.

Árið 1993 stofnuðu Handverkskonur milli heiða hlutafélagið Goðafossmarkað ehf. sem annast sölu á vörum handverkskvenna og fleira fólks úr héraði.  Hlutafélagið er að stærstum hluta í eigu félagskvenna. Nú 21 ári síðar eru Handverkskonur milli heiða enn að auka og bæta framleiðsluna.  Fjölbreytnin vex og verslunin er vinsæll áningastaður ferðamanna vegna þeirra fjölbreyttu og fallegu vöru sem fæst á Goðafossmarkaði.  Handverkskonur hljóta Landbúnaðarverðlaunin fyrir dugmikið starf við útbreiðslu íslensks handverks og atvinnuþróun í dreifbýli.