Hamfaravorið 1949

0
140

Tíðarfarið, það sem af er vori, gerir Þingeyskum bændum lífið leitt. Mikill snjór er víðast hvar í Þingeyjarsýslu og ekkert bólar á vorinu. Bændur eru að verða heylitilir, allur búfénaður þarf að vera á fullri gjöf í einhverjar vikur í viðbót  og við þetta bætast áhyggjur af kaltjóni. Svona tíðarfar er þó ekkert einsdæmi. Sölvi Jónsson, sem var bóndi á Sigurðarstöðum í Bárðardal, hélt veðurfarsdagbók og minnir veðurfarið nú nokkuð á vorið 1949, sem er eitt versta vor í manna minnum í Þingeyjarsýslu.

Álftir í Ljósavatnsskarði.
Álftir í Ljósavatnsskarði.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér fyrir neðan eru lýsingar Sölva á vorunum 1949-1952 og sker vorið 1949 sig úr hvað varðar harðindi. Vonandi verður veðurfarið á næstu vikum ekkert í líkingu við það sem lesa má hér fyrir neðan.

1949.

Sumardagurinn fyrsti. 10 stiga frost með morgni og gaddfrost með norðan átt í allan dag.
Veðrið var eitt hvað versta það ég man á sumardeginum fyrsta. Mjög hvass af norðvestri með 7-10 stiga frosti en lítilli snjókomu. Hafís er á sveimi út af Grímsey stakir jakar.
24. apríl.  Hafís orðinn landfastur við Horn og töluverður rekís austur að Eyjafirði, ísköld ísatíð.
5. maí. Versta veður hafði snjóað mikið nær alltaf norðan hríð og hvassviðri.
9. maí. Hlýtt mjög, stórhláka og leysing
10. maí. Mjög gott veður tekur töluvert
11. maí. Stórhláka er á daginn en frost á nóttu
13. maí. Norðan versta hríðarveður
17. maí. Afar mikið gaddfrost í nótt . Hafís mjög norðan við land.
24. maí. Norðan hríðarveður meira en í gær. Stórhríð talin í Koti (Svartárkot). Margir fara að verða heytæpir.
29. maí. Veður hið allra versta um allt norðurland, hvasst og mikil snjókoma.
31. maí. Argvítugt veður, alltaf saxast á heyin, fé allt inni og er það orðið æði erfitt.
2.   júní. Tók töluvert, kom 10 hjóla trukkur af Húsavík með fóðurbætir.
11. júní. Afbragðs veður mjög hlýtt farið að sjá grænku í hólnum en ekki í úthaga.
14. júní. Ágætt veður. Sleppti öllum ánum að 6. Suðlægur, sólskin tekur mikið.
16. júní. Ágætlega hlýtt og tekur mikið. Sleppti síðustu ánum.

1950.

Sumardagurinn fyrsti . Norðan átt og snjókoma. Öll dýr eru undir þaki.
21. apríl. Norðan hríðarveður, hafði snjóað mikið.
25. apríl. 15 gráðu frost.
30. apríl. Gott veður fyrst en síðdegis fór að hríða í logni. Kom Páll í Engidal og sótti síldarmjöl 2 sk. Fylgdi honum upp á      Fell.
3.maí. Hlýnaði með sunnan átt og fór að síga snær.
8. maí. Mjög mikil hláka enda leysing geysileg
11.maí. Hláka tekur afskaplega. Þýfislækur rann ofaná og yfir Þýfi og niður brekku ekki þó til stórskaða.
18. maí. Norðan átt mjög slæmt veður en ekki stórúrkoma.
21. maí. Sólskin allsæmilegt og blíða. Settum niður í Tungugarð
22. maí. Frost um nætur þurrt og sólskin en gróðurlaust.
27. maí. Gott veður en engin hlýindi. Slepptum hluta af ánum.
31. maí. Suðaustan átt hlýrra. Settum niður kartöflur í Sólvallagarði.
2.  júní. Gott veður gróðrartíð. Fór upp í heiði og leit eftir tófum en fann ei.

1951.

Sumardagurinn fyrsti. Er þó ekki sjáanlegur vottur sumars. 7-8 stiga frost, jökull um alla jörð, um allt land. Afar slæmt ástand sérstaklega á Austurlandi.
20. apríl. Skafheiður og 20 stiga frost fyrst en hlýnaði nokkuð af sól um daginn.
22. apríl. Þýtt og allt að 7 stig. Dálítið um jörð og fundu kindur aðeins bragð og átu lakar í kvöld.
23. apríl. Norðan hríðar slydda og bætir mikið á.
28. apríl. Frost fyrst þó æði mikið en varð sólbráð í dag. Sótti prestabréf út í Hrappstaði, Rík. síðan með það í Sandvík ( innsk. fyrsta starf Rík. v. kirkjumála í Bárðardal) og Palli (Sandvík) í Lundarbrekku. Er það bæn frá biskupi sem á að lesa í öllum kirkjum landsins á morgun.
30. apríl. Sama hægviðrið og sólbráð. Þá er apríl búinn hefur verið mjög erfiður nema síðustu dagarnir.
4. maí. Þó nokkuð frost í nótt og nær mannfæri á snjó. Klökknaði síðdegis.
6. maí. Hvass af norðvestri með frosti allt að 6 stigum
9. maí. Hlýtt í nótt nokkur hláka í dag. Farið að blána niður á grund en alhvítt hér efra.
17. maí. Gott veður og hlýtt. Nú fyrst er grundin nokkuð auð en afar miklir skaflar í giljum og dokkum. 2-3 álna skafl hér sunnan við bæinn.
22. maí. Sama veður tekur mikið daglega. Nú fyrst var farið yfir Fljótsheiði á bílum.
26. maí. Frostlaust og mjög mikill hiti. Snjór horfinn hálfa leið til fjárhúsa minna.
27. maí. Mikill hiti jörð grær allvel. Slepptur fyrstu 14 ánum.
31. maí. Norðvestan og heldur kaldara. Gróður er orðinn þó nokkuð góður viður óvenju grænn.

1952

Sumardagurinn fyrsti. Frost í nótt sólbráð síðdegis.
25. apríl. Hláka, þýtt í morgun og tók mikið.
26. apríl. Norðan hríðarfjúk mest af degi.
29. apríl. Gott veður. Snjór minnkar dálítið og fram í dal mun nær autt vera.
15. maí. Austan átt , frost í nótt en varð heldur hlýrra í dag. Snjór er um 1,5 meter milli húsa og bæjar.
22. maí. Hvass af suðvestri og þornar allt um leið og skaflar hverfa.
27. maí. Norðan átt afar hvass með snjókomu í allan dag.
28. maí. Lítið betra veður, snjókoma en ekki eins hvasst. Ær allar í húsi.
1. júní.  Afar kaldur. Hýsi allar ær og gef óspart. Litla Botna dó í dag sennilega úr blóðsótt.
Lék sér kl. 10, fárveik kl. 3 og dó. Það lambið er ég vildi sýst hafa misst.
7. júní.  Birti nú til og sleppti öllum ám.