Hafdís kjörin íþróttamaður Akureyrar

0
94

Hafdís Sigurðardóttir frjálsíþróttakona, frá Tjarnarlandi í Þingeyjarsveit sem keppir fyrir UFA á Akureyri, var í dag útnefnd íþróttamaður Akureyrar árið 2013 en kjörinu var lýst í hófi á vegum Íþróttabandalags Akureyrar og íþróttaráðs Akureyrarbæjar í Menningarhúsinu Hofi.

Hafdís Sigurðardóttir í Hofi í dag.
Hafdís Sigurðardóttir í Hofi í dag.

“Ég get varla með orðum lýst hversu ánægð og þakklát ég er. Þessi viðurkennig er mér mikils virði og hlakka ég til að takast á við verkefni framtíðarinnar á brautinni. Árið 2013 var mitt besta ár hingað til og þakka ég öllum fyrir styrk og stuðning í gegnum tíðina”, segir Hafdís á facebook-síðu sinni nú í kvöld.

Mbl.is segir frá því að Hafdís setti sitt fyrsta Íslandsmet í flokki fullorðinna í sumar er hún tvíbætti metið í langstökki kvenna. Þá setti hún einnig Íslandsmet í 60m og 300m hlaupi í sumar. Hún er sexfaldur Íslandsmeistari kvenna í spretthlaupum og langstökki innan og utanhúss á árinu 2013. Hún sigraði í öllum hlaupum sem hún tók þátt í hér heima sumarið 2013 og er stigahæsta kona í spretthlaupum  á árinu í 100m hlaupi á 11,88 sekúndum, 200m hlaupi á 23,81sekúndu og 400m hlaupi á 54,03 sekúndum.

Eftir keppnistímabilið 2013 er hún komin í Ólympíuhóp FRÍ 2016 í langstökki, 200m hlaupi og 400m hlaupi, og stefnir að þátttöku á Ólympíuleikunum í Ríó 2016. Hafdís keppti fyrir Íslands hönd á Smáþjóðaleikunum í Lúxemborg og hlaut verðlaun í spretthlaupum, langstökki og boðhlaupum á mótinu.