Gunnar Sigfússon kemur á heimaslóðir með sigurvegara “Eurovision kóranna”

0
550

Eurovision keppni fyrir kóra fór fram í Gautaborg um síðustu helgi, þar sem 10 kórar frá jafnmörgum löndum kepptu sín á milli. Danski samtímakórinn Vocal Line, með Þingeyinginn Gunnar Sigfússon innanborðs, bar sigur úr bítum en Gunnar ætlar að koma með Vocal Line í tónleikaferðalag til Íslands í september.

Vocal Line er a cappella kór sem samanstendur af 30 söngvurum sem með einlægri innlifun, listrænu skynbragði og einkennandi hljóm ná á hverjum tónleikunum á fætur öðrum að snerta huga og hjörtu áheyrendanna. Vocal Line hefur frá upphafi haft það að markmiði að vera í fararbroddi á lands- og alþjóðavísu varðandi þróun á rytmískum kórsöng. Í gegnum árin hefur Vocal Line öðlast mikla viðurkenningu fyrir starf sitt, bæði í Evrópu og víðar um heim og unnið til fjölda alþjóðlegra verðlauna, síðast “European Voices Award” fyrr á árinu og Eurovision um síðustu helgi. Þá hefur Vocal Line haft heiðurinn af að syngja með heimsþekktum tónlistarmönnum á borð við Bobby McFerrin í New York og Rolling Stones á Hróarskeldu hátíðinni.

Jon Ola Sand og Gunnar Sigfússon

Gunnar er fyrsti Íslendingurinn sem syngur í Vocal Line en kórinn hefur verið starfandi í 28 ár. Gunnar var fenginn til þess að sjá um skipulag ferðarinnar og hefur undirbúningurinn staðið yfir í um tvö ár. Vocal Line hefur um langt skeið haft ákveðna tengingu við Ísland, og m.a. sungið lög eftir Björk, Ásgeir Trausta og hjónin Helga Jónsson og Tinu Dickow, sem nú eru búsett á Íslandi. Titillag síðustu plötu Vocal Line, True North, sem einnig var framlag kórsins í Eurovision, er eftir Dickow og tónlistarmyndband við lagið er unnið af íslenska ljósmyndaranum Gísla Dúa. Vegna þessarra tengsla heldur kórinn nú loksins í langþráða tónleikaferð til Íslands til að leyfa Íslendingum að njóta tónlistarinnar.

Vocal Line mun halda eftirfarandi tónleika:

  1. september kl. 20: Hamraborg, Hofi. Miðasala á mak.is og tix.is.
  2. september kl. 20: Skálholtskirkja. Miðasala á tix.is og við innganginn.
  3. september kl. 20: Silfurberg, Hörpu. Sameiginlegir tónleikar með íslenska kórnum Vocal Project. Miðasala á harpa.is og tix.is.

Hér má horfa á siguratriðið