Guð

0
131

Guð. Um leið og þetta stutta en jafnframt stóra orð hljómar fara æði margar tilfinningar og hugsanir í gang. Við höfum öll skoðun á þessu orði og inntaki þess. Sumir eiga auðveldara með að tjá sig um það heldur en aðrir, en þörfin er engu að síður til staðar í hverri sál.  Það er alltént trú mín.

Skoðanirnar geta birst í ótal myndum. Fólk tengir orðið við gæsku og kærleika í heiminum. Fólk tengir orðið við illsku og hryðjuverk í hinum sama heimi.  Fólk tengir orðið við söguna og fortíðina, fólk tengir orðið við núið og það sem koma skal.

Þetta er orð sem hefur verið notað á svo margþættan hátt. Það hefur verið notað til að koma góðum skilaboðum til leiðar, til að gefa fólki von í erfiðum aðstæðum.  Það hefur líka verið notað eða öllu heldur misnotað til að koma annarlegum skilaboðum áleiðis og til að gefa fordómafullum viðhorfum vængi.

Það er að hluta til kannski ein þeirra skýringa af hverju orðið Guð sé á við jarðsprengjusvæði og þar af leiðandi skýring á því hvers vegna fólk veigrar sér við að stíga inn á það.

Allur þessi hiti í kringum Guðshugtakið þar sem athugasemdakerfi glóa og upphrópunarsamræðan nær allt að því upp í sjöunda himinn gerir það, að mínu mati, að verkum að það hreinlega fer framhjá okkur sú merkilega og mikilvæga spurning hver sé raunveruleg merking Guðs í tilvist okkar.

Hefur umræða undanfarinna ára um Guð í hryðjuverkum, Guð í fordómum, Guð í stofnunum og kerfum samfélagsins valdið því að við fjarlægjumst viðfangsefnið, viljum ekki tjá okkur um það, viljum ekki þurfa að standa frammi fyrir því að svara fyrir trúarskoðanir okkar, óttumst það að nefnum við Guð á nafn verðum við stimpluð bókstafstrúarfólk og afhjúpuð sem hreinlega skrýtin af því að við trúum á Guð sem sést ekki og ekki er hægt að snerta?

Það má vera að það sé heldur einfaldara í nútímanum, í veröld þar sem manneskjan er að uppgötva eitthvað á hverjum degi, í heimi þar sem það fer að verða daglegt brauð að fólk sprengi sig í loft upp á götum úti í nafni trúar, að ræða málin út frá Guðleysi, að hafa þetta orð sem er líka svona ögrandi og krefjandi úr myndinni. Eða er það raunverulega hægt?

Þessar vangaveltur mínar sem ég hef sett hér á blað vakna m.a. eftir lestur bókar Rob Bell „Það sem við tölum um þegar við tölum um Guð” í íslenskri þýðingu Grétars Halldórs Gunnarssonar. Höfundurinn er kunnur þáttastjórnandi og rithöfundur í Bandaríkjunum, hann hefur endurhugsað kristna trú í heimalandi sínu og er öflugur áhrifavaldur í umræðunni.  Bókin er áleitin og hugvekjandi.

Það sem er líka svo gott við lestur bókarinnar eru fjölmargar stuttar sögur sem Bell notar sem dæmi til að útskýra mál sitt. Ég nam staðar við eina þeirra sem ég vil  deila með ykkur lesendum því hún dregur fram nokkuð sterkan punkt til að huga að merkingu Guðs í tilvistinni.

Bell segir frá grínista, vini sínum, sem tók á sig gervi gamals prests frá Írlandi. Þessi persóna náði vel til áheyrenda og áhorfenda og einhverju sinni á kvöldskemmtun í uppstandsklúbbi fór hann á svið þar sem stóðu tveir stólar og hann setti pappaskriftaglugga á milli sín og hins stólsins. Það sem gerðist var að fjöldi áhorfenda kom upp á svið til að játa syndir sínar fyrir gamla írska prestinum.

Með þessari sögu var Bell að leggja áherslu á það að við burðumst með leyndarmál, eftirsjá, ótta, svo ótalmargt sem við vitum ekki hvað við eigum að gera við og kosta okkur heilmikla orku. Og hann bendir á, sem hæglega má taka undir, að líkami, hugur og hjarta og samviska kalla stöðugt eftir einingu í lífinu þar sem margt er einmitt aðgreint og sundrað.

Í þessu ljósi er einn flöturinn á því að ræða merkingu Guðs í tilvistinni sá að Guð sé kraftur sem leiðir áfram vitund okkar um það þegar eitthvað er að plaga okkur, eitthvað sem er ekki rétt að halda leyndu og við eigum ekki að burðast með ein.

Þetta rímar reyndar mjög vel við nýlegt blaðaviðtal við leikstjórann Baltasar Kormák sem lýsir þar upplifun sinni og reynslu af AA fundum. Honum fannst það eins og að fara í kirkju að sækja starf AA samtakanna, sammeðvitundin, samlíðanin, þar sem fólk talar saman án þess að kenna öðrum um.

Það er jú eitt af stóru hlutverkum kirkjunnar að hjálpa fólki fyrir það fyrsta að gera Guð merkingarbæran í tilveru þess, hlusta eftir byrðum þess sem léttir á sálinni og skapar einingu í lífinu og leggja rækt við samvitund og samlíðan í samfélagi sem skal ekki vera ásakandi heldur frelsandi.  Guð er þar.