Greinargerðarpæling

0
79

Er greinargerð upp á 716 orð næg rök fyrir því að loka grunnskóla?

Í byrjun desember boðaði ég með sólarhringsfyrirvara á Facebook til samstöðufundar með grunnskólahaldi á Laugum fyrir utan skrifstofu sveitarfélagsins. Um 50 manns mættu síðdegis á fimmtudegi og ég mælti m.a. nokkur orð til viðstaddra um mikilvægi þess fyrir Þingeyjarsveit að rekinn sé grunnskóli í byggðarkjarnanum, þar sem vaxtarbroddurinn er og hefur verið.

Aðalsteinn Már Þorsteinsson
Aðalsteinn Már Þorsteinsson

Hin góða mæting á þennan fund réðist örugglega að nokkru leyti af því að viku áður hafði sveitarstjórn tilkynnt tillögu sína í skólamálum, sem fólst í því að reka ekki grunnskóla á Laugum. Ég held að óhætt sé að fullyrða að tillagan hafi vakið mikil og hörð viðbrögð. Það var þó ekki hvað síst sú staðreynd að sá meirihluti sveitarstjórnar sem lagði tillöguna fram valdi, og taldi það fullkomlega eðlilegt, að gera það án þess að færa nokkur rök fyrir tillögu sinni.

Að sögn oddvita var það til þess að veita skólaráði og fræðslunefnd, sem eiga lögum samkvæmt að taka slíka tillögu fyrir áður en hún er endanlega ákveðin, frelsi til þess að fjalla um hana án þess að hafa í höndunum „forskrift“ sem gæti hugsanlega haft áhrif á álit þeirra á tillögunni. Af þessu mátti skilja sem svo að þó svo að tillagan hefði verið lögð fram væri endanleg ákvörðun ekki komin. Taka ætti tillit til og hlusta eftir því sem fram kæmi í umfjöllun um þessa tillögu. Mér fannst því upplagt að halda samstöðufund svo sveitarstjórnarfulltrúar gætu séð hversu stór og öflugur hópur fólks innan sveitarfélagsins stendur að baki því að grunnskólarekstur sé ekki færður úr byggðarkjarnanum. Þó svo að hvorki skólaráðfræðslunefnd legðust gegn tillögunni komu fram gagnrýnisraddir frá aðilum bæði innan ráðsins og nefndarinnar. Aðalfundur Foreldrafélags Litlulaugaskóla og Krílabæjar lagðist hins vegar einróma gegn tillögunni og mikil gagnrýni og óánægja kom fram á opnum fundi sem Foreldrafélagið boðaði til og var haldinn í Dalakofanum 16. desember.

Meirihluti sveitarstjórnar lagði tillöguna fram með öllu óbreytta á fundi 18. desember. Hafi íbúafundurinn eða þær athugasemdir sem fram komu annars staðar frá haft einhver áhrif bar lokaniðurstaðan þess enginn merki. Það vekur í raun furðu mína að fulltrúar meirihlutans virtust ekki hafa neinn áhuga á því að ræða tillöguna, innihald hennar né neitt annað sem málinu tengist á sveitarstjórnarfundunum. Hvorki þegar tillagan var lögð fyrst fram og sett í lögformlegt ferli né þegar að því kom að staðfesta hana. Maður skyldi ætla að fundirnir væru opinber vettvangur þar sem slíkar umræður beinlínis ættu að fara fram. Mér finnst það líka í raun bara nokkuð aðdáunarvert að 7 (5 fulltrúar og 2 varafulltrúar) einstaklingar með ólíkan bakgrunn úr ýmsum áttum skuli ná að komast svo einróma að niðurstöðu, í jafn erfiðu og viðkvæmu máli, að enginn þeirra setji fram svo mikið sem minnstu efasemd um hana. Ef hér væri á ferðinni hópur fólks úr stórum stjórnmálasamtökum sem störfuðu á landsvísu kæmi sjálfsagt einhverjum til huga orðið flokksræði. Hér eru hins vegar á ferðinni einstaklingar sem ekki eru bundnir að neinu öðru en eigin sannfæringu. Ekkert sem fram kom í gagnrýni á tillöguna náði að hnika til sannfæringu neins þeirra hið minnsta. Samstaðan er algjör og viljinn skýr. Fáir vita hvað fór fram á lokuðum fundum þessara einstaklinga þar sem tillagan varð til. Það eina sem við, ég og allir hinir íbúar sveitarfélagsins, getum gert er að skoða þau rök sem lögð eru fram til að styðja ákvörðunina, greinargerðina. Sjálfur hef ég bent á svo fjöldamörg rök sem leiða að því að farsælasti kosturinn (ef menn ætla sér bara að skoða þá kosti sem núverandi meirihluti býður upp á að skoða) sé að loka frekar starfstöðinni í Hafralækjarskóla. Margir sem kusu Samstöðu, ekki hvað síst vegna loforðs um ljósleiðaravæðingu, töldu í raun málið svo augljóst að í raun væri ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu ef farið yrði í það að fara með allt á aðra starfsstöðina. Þetta fólk er í dag undrandi á niðurstöðu málsins og þó ekki hvað síður þeim mikla skort á góðum rökum sem einkenna ákvörðunina.

Í ljósi allra þeirra fjölmörgu atriða sem mæla með því að skólahald sé í byggðarkjarna sveitarfélagsins hefði mátt ætla að sá sem ætlar sér annað myndi leggja fram mörg stór og veigamikil rök en greinargerðin er ekki stórt skjal, eingöngu 716 orð. Fyrsti þriðjungur skjalsins fer í að réttlæta gjörninginn með tilvísun í kosningarlorforð. Síðasti þriðjungurinn fer í að útskýra hvernig tekist verður á við afleiðingar gjörningins á faglegan hátt og hugsanlegum afleiðingum mætt. Eftir standa tæp 250 orð þar sem færð eru rök. Um helmingur þess eru rök fyrir því að færa Þingeyjarskóla allan á eina starfsstöð, hinn helmingurinn hvers vegna Hafralækjarskóla en ekki Litlulaugaskóla. Lengd segir svo sem ekki allt og stundum er hægt að segja margt með fáum orðum en mér finnst samt innihaldið heldur rýrt. Í stuttu máli sýnast mér rökin vera þessi:

  • Skólahúsnæði Hafralækjarskóla er nógu stórt, það uppfyllir kröfur og viðhaldsþörf má mæta með fjárútlátum á næstu árum innan viðráðanlegra marka.
  • Skólahúsnæði Litlulaugaskóla er ekki nógu stórt, sveitarstjórnarfulltrúarnir líta persónulega ekki á viðbyggingu við það húsnæði sem æskilega og varanlega lausn og bygging nýs skólahúsnæðis væri óábyrg meðferð á opinberu fé auk þess sem sveitarfélagið er fjárhagslega ekki í stakk búið til þess.

Eru þetta nægilega góð rök fyrir því að færa grunnskólann úr byggðarkjarnanum á Laugum? Standast þessi rök einhverja nánari skoðun? Þarf ekki að færa meiri rök en þetta fyrir því að veikja viljandi þann hluta sveitarfélagsins þar sem íbúum hefur fjölgað á síðustu árum? Þarf ekki að grafa dýpra og skoða betur hvað hlutirnir kosta, hverju er fórnað og hvað fæst áunnið? Er þetta í lagi?

Ég segi nei, það þarf að færa betri rök og skoða málið betur. Þessi vinnubrögð eru ekki í lagi. Ég er ennþá sannfærður um að lokun Litlulaugaskóla vinnur gegn samfélaginu og veldur sveitarfélaginu og íbúum þess miklu tjóni. Ég tel að ákvörðunin sé illa ígrunduð og standi engan veginn á faglegum rökum – það sem lagt er fram sé ekki nóg. Á meðan ekki eru lögð fram frekari gögn og rök sem styðja ákvörðunina – eða hún afturkölluð – get ég ekki annað en MÓTMÆLT.

Ekkert var þó eins fjarri mér eins og það að fara að boða til og standa fyrir mótmælum þegar ég boðaði til samstöðufundar fyrir utan sveitarstjórnarskrifstofurnar þann 11. desember sl. Ég verð að viðurkenna að mér hafa alltaf fundist mótmæli hálf kjánaleg. Vissulega hef ég stundum tekið undir málstað mótmælenda en aðferðin – hávaði, læti og trumbusláttur, marseringar og kröfuspjöld – fékk mig þó alltaf til þess að hrista hausinn. Þetta virkar allt svo tilgangslaust og vitlaust.

Mér fannst gott og auðvelt að blása til samstöðufundarins, mætingin var góð, stemmingin fín og ég fór glaður heim með von í brjósti – en engu fengum við þó breytt. Ákvörðun var tekin og ég get ekki bara setið heima og látið duga að skrifa pistla – það virðist ekki hlustað á rök. Ég finn mig knúinn til þess að fara út og mótmæla. Mér finnst það samt ekki gott, og auðvelt er það ekki heldur. Mætingin verður sjálfsagt seint ef þá nokkurn tímann jafn góð eins og á samstöðufundinn og líðanin verður sjálfsagt alltaf heldur ónotaleg. Kannski væri það aðeins auðveldara ef ég væri að mótmæla einhverju sem eitthvað ókunnugt fólk sem byggi langt burtu hefði gert. Það er ekki þægilegt að horfa inn um gluggann á fólk sem maður þekkir og berja saman pottum á meðan. Ég myndi ekki gera það nema bara af því að það er svo mikið í húfi. Ég er í forsvari því einhver þarf að taka af skarið svo að aðrir sem vilja mótmæla fái tækifæri til þess að gera það. Ég held áfram að mótmæla því það er svo margt fólk í sveitarfélaginu sem þakkar mér fyrir og hvetur mig til þess. Fólk sem ekki á þess kost á að mæta sjálft og mótmæla og fólk sem ekki þorir að mótmæla af ótta við þær afleiðingar sem það hefði fyrir það og stöðu þess í sveitarfélaginu. En ég MÓTMÆLI! Það er einfaldlega bara kominn röðin að öðrum að hrista hausinn.

Aðalsteinn Már Þorsteinsson.