Gott haust fyrir gripi

0
309

Haustið sem nú er senn á enda var óvenju veðragott og nautgripir voru lengur úti en oft áður. Segja má að innistöðudagar hafi verið fáir í haust ef frá eru dregnir rigningardagar sem komu í september sem urðu til þess að ekki varð mjög vistlegt í grænfóðurökrum. Þetta lagaðist og tíðarfar varð gott til haustbeitar sem margir notuðu sér vel. Á nokkrum bæjum voru mjólkurkýr úti vel fram yfir 1.vetrardag og geldneyti mun lengur.

Holdagripir
Holdagripir

Nautgripirnir á Hóli á Tjörnesi eru mikið úti og kunna vel við sig á beitinni. Myndin hér að ofan var tekin 13.nóvember og var þá enn sumarlegt á Tjörnesi, græn tún og útsýni til allra átta.  Í baksýn má sjá Mýrarkot og eyjarnar fyrir Tjörnesi. Þær heita Háey og Lágey.

Ísbjörn
Ísbjörn

Kálfurinn á Hóli sem nefndur hefur verið Ísbjörn fæddist í vor og hefur þrifist ótrúlega vel, enda gekk hann úti í allt sumar og haust og hafði góða beit.

Eyþór
Eyþór

Eyþór Hemmert Björnsson nautgripabóndi á Hóli  hefur mjög gaman af gripunum og gefur þeim stundum „sælgæti“ í fötu á milli mála.

Glúmur Haraldsson Hólum
Glúmur Haraldsson Hólum

Glúmur Haraldsson í Hólum í Reykjadal er mjög duglegur að hafa mjólkurkýrnar úti og líklega sló hann sitt eigið met í útivist þetta haustið, en kýrnar í Hólum fóru seinna inn en nokkru sinni áður.

Glúmur Haraldsson
Glúmur Haraldsson

Glúmur hefur gaman af að spjalla við kýrnar í haganum og það kunna þær vel að meta.

Kýrnar á Laxamýri
Kýrnar á Laxamýri

Grænfóður spratt vel fram eftir hausti og entist lengur en oft áður á bæjunum. Hér njóta kýrnar á Laxamýri útivistarinnar.

Hvort svona haust kemur aftur skal ósagt látið, en stundum líða mörg ár á milli . Mikið hefur verið talað um haustið 1939 sem gott og gjöfult haust, en í bók Friðjóns Guðmundssonar bónda og veðurathugunarmanns á Sandi í Aðaldal má lesa margt fróðlegt um veðurfar í Suður-Þingeyjarsýslu á síðustu öld. Vonum bara að næsta haust verði gott eins og þetta. (Myndir og texti: Atli Vigfússon)