Göngum niður Gilið.

0
442

Náttúran er sá staður sem við þurfum hvað mest á að halda. Við erum kannski  ekki öll sammála um hvernig best sé að umgangast hana, en gerum okkur þó allflest grein fyrir því að þekking á náttúrunni og fyrirbærum hennar er mannfólkinu lífsnauðsynleg. Sjálfsagt er það eins misjafnt og við erum mörg hvernig/hvort við tengjum yfir höfuð við náttúruna og hversu dugleg við erum að innprenta börnunum okkar virðingu fyrir henni. Það er ekki sjálfgefið að svo sé, enda talað um að tengsl fólks við náttúruna fari þverrandi.

Það er margs að að njóta á landinu fagra og alls ekki nauðsynlegt að ferðast um landið þvert og endilangt, á staðina sem „allir fara á“ til að upplifa þá sálarró sem fylgir því að vera úti í náttúrunni og njóta. Oft liggja fegurstu perlurnar rétt við fætur okkar án þess að við gefum þeim mikinn gaum.

Sjálfri líður mér best úti í náttúrunni, sæki mér þangað orku með því að klífa fjöll eða fá mér góða gönguferð og það er sannarlega um margt að velja í þeirri nátttúruparadís sem við búum í. Mér er það því ljúft og skylt að verða við ósk stjórnanda 641 að greina frá einni af mínum uppáhalds gönguleiðum. Leið sem einmitt gæti verið skemmtileg fyrir alla fjölskylduna að rölta saman. Gangan gæti tekið nokkra klukkutíma, því það er margt sem tefur og er vert að skoða. Nauðsynlegur búnaður til fararinnar eru góðir skór, skjólgóður klæðnaður og svo auðvitað gott nesti. Ekki spillir að hafa meðferðis plöntubók til að fletta upp í á leiðinni.

Ein af okkar fegurstu perlum er Skjálfandafljót, en það er fjórða lengsta vatnsfall landsins, 175 km. Fljótið byltist niður Bárðardalinn, eftir að hafa runnið norður Sprengisand og safnað í sig ótal mörgum ám og lækjum á leiðinni. Það á uppruna sinn á sléttum söndum í 2000 m. hæð, nánar tiltekið í Vonarskarði, sem liggur á milli Bárðarbungu í Vatnajökli og Tungnafellsjökuls. Skjálfandafljót á náin tengsl við sögu þjóðarinnar, í því eru margir merkilegir sögustaðir og eru sumir þeirra vinsælir áningastaðir ferðamanna. Þar er helst að nefna Goðafoss, einn tilkomumesta og fegursta foss landsins, en í hann á Þorgeir Ljósvetningagoði (samkvæmt Kristinni sögu)  að hafa kastað heiðnum skurðgoðum sínum í við kristnitöku Íslendinga árið 1000.

Fjölmörg svæði og náttúrufyrirbæri í fljótinu og vatnasviði þess eru á náttúruminjaskrá, m.a. Goðafoss, Aldeyjarfoss og Hrafnabjargafoss, að ótalinni Þingey, sem Þingeyjarsýslur og Þingeyjarsveit draga nafn sitt af.

Náttúrufegurð Skjálfandafljóts, umhverfið allt og vatnasvæði þess er einstakt. Margar fallegar gönguleiðir eru meðfram fljótinu og það er einmitt ein þeirra sem ég nefni hér sem hugmynd að skemmtilegri gönguferð fyrir fjölskylduna.

Aldeyjarfoss er vinsæll áningastaður ferðamanna og er leiðin að honum vestanverðum mörgum kunn. Líklega eru þeir færri sem fara að fossinum austanverðum, en þó eru töluvert margir sem kjósa að koma þeim megin að honum. Best er að hefja gönguna frá bílastæði skammt innan við Stórutungu og rölta þaðan eftir þægilegri slóð út í  Aldey og eftir henni upp að fossinum.

Aldeyjarfoss er hinn fegursti foss, innrammaður af tilkomumiklu og fallega formuðu stuðlabergi, sem sem er hluti af hraunþekjunni Frambruna eða Suðurárhrauni. Fossinn er um 20m hár og það er tilkomumikið að standa á fossbrúninni, finna bergið  titra undir fótum sér og virða fyrir sér hvítfrussandi fossinn byltast niður með dökku berginu. Aldrei er of varlega farið og vert að hafa sérstaka gát á yngsta göngufólkinu á þessum stað.

Ekki er öllum kunnugt sem leggja leið sína að Aldeyjarfossi, að litlu lengra upp með fljótinu eru lítt þekktir fossar er nefnast Ingvararfossar. Þeir eru ekki síður fallegir og vel þess virði að ganga spöl í viðbót til að skoða þá. Sagan segir að skessa nokkur er Ingvör hét hafi gjarnan tiplað yfir fljótið á fossbrúninni, en að lokum skriplað til á brúninni, fallið í fossinn og látið þar lífið. Sannleiksgildi þeirrar sögu þekki ég ekki en víst er að risavaxið stuðlabergið, pússað hraunið og stórbrotnir skessukatlar færa manni heim sanninn um það hvílíkur ógnarkraftur  býr í þessu vatnsfalli og myndi ólíklega skila manni lifandi sem félli þar ofan í og hvað þá tröllskessu.

Eftir að hafa skoðað Ingvararfossa höldum við til baka. Fyrir þá sem vilja gera ferðina enn skemmtilegri er hægt að fara Gilið og ganga til baka merkta leið sem liggur eftir gömlum, vel grónum farvegi fljótsins og er einstaklega falleg. Örlítið klungur er niður í Gilið, en vaður til að halda sér í, þannig að það ætti ekki að vera neinum vandkvæðum bundið að komast þar niður. Víða eru bergvatns uppsprettur undir hrauninu og fljótlega stingur lítill lækur upp kollinum og hjalar glaðlega þar sem hann skoppar niður eftir farveginum. Nefnist hann Kvíslin. Lækurinn er fyrirferðarlítill í fyrstu, en stækkar eftir því sem fleiri bergvatnskvíslar bætast í hann. Gilið er vel gróið og margvíslegar plöntur vaxa meðfram lækjarkvíslinni innan um stuðlabergið og skessukatlana. Litlir skútar leynast líka víðsvegar á gönguleiðinni og í gilbörmunum má sjá margs konar fígúrur sem hraunið hefur myndað og geta þær örvað ímyndunarafl yngri jafnt sem eldri göngumanna. Er niður úr hrauninu er komið er farið yfir brú á Kvíslinni, sem er þá orðinn hinn myndarlegasti lækur, en síðan liggur slóðin áleiðis aftur að bílastæðinu. Gangan niður Gilið er sannkallað ævintýri, ekki síst fyrir unga göngugarpa. Það er líka til mikils að vinna að kenna börnunum að þekkja umhverfi sitt og góð upplifun fyrir alla að upplifa dásemd náttúrunnar, anda að sér hreinu lofti, jafnvel staldra við og drekka hreint vatn úr lækjarsprænum.  Upplifun af þessu tagi verður ekki metin til fjár, en hugmyndin að gönguferð sem þessari er frekar ætluð sem innlegg til að hvetja börn og foreldra til útiveru og samveru. Kenna börnum að upplifa leyndardóma umhverfisins og finna sanna gleði í náttúrunni.

Kóngulóin spinnur vef sinn á fossbrúninni, ekki vinsælasti hryggleysingi veraldar, en engu að síður hluti af lífríkinu og á sama rétt til lífsins og við hin.

Gott er að hafa vaðinn til halds og trausts þegar farið er niður í Gilið.

Skessukatlar eru víða áberandi á svæðinu, en þeir verða til þar sem hringiður eru í ánni. Möl og sandur lenda í hringiðunni, setið virkar eins og bor og nær að grafa veggbrattar holur í berggrunninn.

Melgresi skýtur gjarna rótum í sandorpnum hraunum og eyrarrósin kann einnig ágætlega við sig á hálendinu.

Kvíslin myndar flúðir og litla fossa í farveginum og eykst eftir því sem líður á ferðalagið. Það setur sannarlega mark sitt á umhverfið og gerir það enn tilkomumeira. Lítil trébrú er ofarlega í Gilinu og hægt að trítla yfir hana og skoða Lekahelli.

Stuðlabergið í Gilinu er stórbrotið og fólk finnur til smæðar sinnar í þessu mikilfenglega umhverfi.

Litið við í Lekaskúta, en þar kann tófugrasið vel við sig, líður enda best í skugga og vex gjarnan í klettasprungum og skútum.

Ærnar leita í skjólið til að verja sig fyrir sólinni og mýinu sem oft er aðgangshart, bæði við menn og skepnur. Þessi tvílemba leitaði skjóls í Móruhelli.

Margir skemmtilegir skútar leynast í Gilinu og í gegnum einn þeirra liggur gönguleiðin.

Hvönnin er vel áberandi meðfram Kvíslinni, sem hjalar glaðlega og sækir í sig veðrið eftir því sem neðar dregur. Víða má sjá skemmtileg fyrirbæri, tröll og forynjur út úr hraunmyndunum á gilbörmunum.

Þessi tröllkarl/kerling horfir upp með Skjálfandafljóti, löngu orðin að steini. Kannski er það Ingvör skessa sem forðum skriplaði fótur á fossbrúninni. Hver veit!

Texti og myndir:

Ósk Helgadóttir