Góð heilbrigðisþjónusta er lykilatriði

0
233

Velferðarmál eru einn þeirra málaflokka sem Vinstri græn leggja mesta áherslu á. Grunnstefið í stefnu Vinstri grænna í heilbrigðismálum er að tryggja jöfnuð þannig að allir hafi sama aðgang að góðri heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og búsetu. Við teljum afar mikilvægt – og löngu tímabært – að opinber grunnþjónusta í heilbrigðis- og öldrunarþjónustu sé skilgreind með félagshyggju og nærþjónustu að leiðarljósi.

Bjarkey Gunnarsdóttir
Bjarkey Gunnarsdóttir

Nú hefur verið hafist handa við að endurskoða almannatryggingakerfið með áherslu á einföldun þess sem er um leið liður í að jafna aðgengi fólks aðvelferðarþjónustunni. Mikilvægt mál sem ekki hefur fengið mikla umfjöllun er niðurfelling innritunargjalda á sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir.

Tryggja þarf að heimaþjónusta og samþætting hennar, auk framboðs hjúkrunarrýma í samstarfi ríkis og sveitarfélaga sé fullnægjandi. Eldra fólk á ekki að flytja hreppaflutningum af því einhversstaðar hafi verið ákveðið að ekki sé hægt að vera með hjúkrunar- eða dvalarrými á þeirra heimaslóðum.

 

Heilsugæsla og forvarnir

Leggja verður aukna áherslu á forvarnir í víðasta skilningi þess orðs og í því sambandi þarf að efla heilsugæsluna á landsbyggðinni. Samþætta þarf þjónustuna í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að fólk lendi á milli kerfa í heilbrigðis- og félagsþjónustunni. Styrkja þarf heilsugæsluna þar sem boðið er uppá þjónustu margra fagaðila. Það ætti að létta álagið á hinni sérhæfðu þjónustu sjúkrahúsanna. Hluti af því er að upplýsingakerfi sjúkraskráa séu samtengd þannig að stytta megi boðleiðir, efla þjónustu og auðvelda eftirlit.

Virkar forvarnir og sterk heilsugæsla á landsbyggðinni er ekki einungis nauðsynleg grunnþjónusta heldur besta úrræðið til að létta á dýrari úrræðum. Íbúar sem búa við góða heilsugæslu eru ánægðir íbúar og virkari til allrar samfélagsþátttöku.

Framtíðin

Nú er farið að birta til í efnahag þjóðarinnar og í nánustu framtíð er mikilvægt að vinna að því að jafna aðgengi að velferðarþjónustunni þar sem hugað verði sérstaklega að viðkvæmum hópum og ólíkum aðstæðum kynjanna. Til þess að velferðarkerfið virki, á sem skilvirkastan hátt fyrir alla, þarf að samhæfa störf heilsugæslu, sjúkrahúsa og sérfræðinga og styrkja heilsugæsluna sérstaklega sem fyrstu viðkomustöð.

Ég vona að kjósendur minnist okkar Vinstri grænna á kjördag vegna þeirra málefna sem við berum helst fyrir brjósti. Okkar stefna og málflutningur byggist á manngæsku, heiðarleika, jöfnuði og kvenfrelsi. Vinstri græn eru augljós valkostur þeirra sem deila þessum meginviðmiðum með okkur. Setjum x við V á kjördag!

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Höfundur skipar 2. sæti á lista Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi.