Girðingar ónýtar mjög víða

0
148

Það voru ekki bara rafmagnslínur sem fór illa í óveðrinu sem gekk yfir um helgina. Ísing hlóðst líka á girðingar og sligaði þær. Dæmi er um að nánast allar griðingar sé ónýtar á einhverjum bæjum í Mývatnsveit og Bárðardal. Að sögn Sigríðar Baldursdóttur bónda í Víðikeri í Bárðardal, eru allar girðinar sem liggja austur/vestur í Víðikeri meira og minna ónýtar.

Víðikerbændur eru vanir því að bjarga sér. Raflínurstaur réttur við í Víðikeri með dráttarvélum.
Mynd: Tryggvi Pálsson.

Girðingarnar liggja flatar og allir staurar eu brotnir í þeim og þær eru alls ekki fjárheldar. Girðingarnar sem liggja norður/suður eru í betra ástandi, en tæplega fjárheldar. Mikil vinna og kostnaður er fyrirliggjandi við lagfæringar á þeim.

Bændur í Víðikeri voru þó heppnir og telja sig ekki hafa orðið fyrir miklum fjárskaða í óveðrinu.

Að sögn Sigríðar er snjór á flestum  túnum hjá þeim og því lítil beit. Kálið sem var ætlað lömbum sem fara eiga í seinni slátrun, er að mestu undir snjó og líklega eru grágæsirnar langt komnar með að éta upp allt kálið, en þær héldu til í kálinu á meðan óveðrið gekk yfir.

Sláturfé var sótt í Víðiker á sunnudagskvöld, í þann mund sem óveðrið var að skella á og þess vegna er talsvert rýmra um fé í Víðikeri fyrir vikið.

Rafmagn komst á í Víðikeri í fyrra kvöld en hefur verið óstöðugt síðan og var td. rafmagnslaust lengi í Víðikeri dag.