Gerum okkur mat úr jarðhitanum

0
170

Eimur, í samstarfi við Matarauð Íslands, Íslensk verðbréf og Nýsköpunarmiðstöð Íslands stendur um þessar mundir fyrir hugmyndasamkeppni um nýtingu jarðhita til matvælaframleiðslu.

Snæbjörn Sigurðarson framkvæmdarstjóri Eims sagði að með keppninni, sem nefnist: „Gerum okkur mat úr jarðhitanum“, væri leitast við að finna nýjar leiðir til að efla nýtingu náttúruauðlinda á Norðausturlandi með sjálfbærni í fyrirrúmi.

Eimur stóð á síðasta ári fyrir sambærilegri keppni um nýtingu lághitavatns í samstarfi við Vaðlaheiðargöng. Þá bárust 14 tillögur og var hugmynd sem snýst um uppbyggingu á náttúruböðum í fjörunni neðan við göngin valin hlutskörpust.

Öllum er frjálst er að senda inn tillögur og getur hugmyndin falist í frumvinnslu, fullvinnslu, hliðarafurðum, hráefnum, nýjungum bara hverju sem er sagði Snæbjörn. Hann sagði einnig að það væri hugmyndinni til tekna ef hún byggði á samvinnu ólíkra aðila.

Fimm manna dómnefnd mun velja tvær bestu hugmyndir sem hljóta peningaverðlaun, 2 milljónir fyrir fyrsta sætið og 500 þúsund fyrir annað sætið. Einnig kemur til greina að velja fleiri hugmyndir til frekari skoðunar í samvinnu við bakhjarla Eims. Skilafrestur er til 15. maí og frekari upplýsingar um samkeppnina má finna á eimur.is og mataraudur.is.

Að Eim standa Landsvirkjun, Norðurorka, Orkuveita Húsavíkur og Eyþing, samband sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum.