Vel stæðir útlendingar á fjórum gömlum Bentley kappaksturbílum litu við á Samgönguminjasafninu í Ystafelli í dag, en eigendur og ökumenn þeirra eru á hringferð um landið þessa daganna. Bílarnir hafa vakið mikla athygli þar sem þeir hafa komið við á hringferð sinni um landið og það ekki af ástæðlausu, því bílarnir eru glæsilegir á velli.

Sverrir Ingólfsson á Samgönguminjasafninum í Ystafelli sagði í spjalli við 641.is í kvöld að þetta væru glæsilegri bílar og voru þeir notaðir ma. í kappakstur á sínum tíma. Bílarnir sem eru árgerð 1928 til 1932, fara létt með að keyra á vel yfir 100 km hraða. Að sögn Sverris er boddíið á þessum bílum að mestu úr timbri og leðurlíki strengt á til þess að létta þá. Eins og sést á myndum sem Sverrir tók af þeim í dag, eru bílarnir alveg opnir og því ekki beint heppilegir til ferðalaga á Íslandi, nema að klæða sig vel. Aðspurður um verðmiðann á svona bílum taldi Sverrir að hann skipti nokkrum milljónum á bíl og jafnvel eitthvað á annan tuginn, því fáir svona bílar væru eftir í heiminum í dag. Meðfylgjandi myndir tók Sverrir Ingólfsson í dag.


