Fyrsti pistill frá nýjum sveitarstjóra Skútustaðahrepps

0
132

Óhætt er að segja fyrstu vikurnar í starfi sveitarstjóra Skútustaðahrepps hafi verið viðburðaríkar. Fyrsta daginn sem ég mætti til starfa kom niðurstaða úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál sem felldi úr gildi framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4. Þetta mál hefur reynt mikið á fámenna stjórnsýsluna og sveitarstjórnina en um leið og úrskurðurinn kom var sett af stað verkefnisáætlun sem unnið var eftir þar sem markmiðið var að fara skipulega í gegnum úrskurðinn til þess m.a. að fullnægja rannsóknarskyldu samkvæmt stjórnsýslulögum. Nýtt framkvæmdaleyfi var gefið út rúmlega tveimur vikum síðar. Ég verð að hrósa sveitarstjórn og skipulagsnefnd ásamt sérfræðingum okkar fyrir fagleg vinnubrögð í kjölfar úrskurðsins. Jafnframt höfum við átt í góðu samstarf í við nágrannarsveitarfélög okkar í þessu erfiða máli.

Fleiri stórmál
Fleiri stórmál hafa verið í vinnslu og sér vonandi fyrir endann á þeim flestum. Síðasta laugardag var gefið út framkvæmdaleyfi fyrir fimm þúsund fermetra hótelbyggingu á þremur hæðum á svonefndum Flatskalla í landi Grímsstaða eftir að Umhverfisstofnun veitti sitt leyfi fyrir framkvæmdunum að uppfylltum nokkrum skilyrðum. Þar má nefna að lögð verði áhersla á að við val á klæðningu ytra byrði byggingarinnar verði valin efni sem að áferð og lit falli sem best að næsta nágrenni, hreinsistöð skal vera í samræmi við framlögð gögn, ofanvatn af bílastæði verði hreinsað og tryggt að ekki berist olía frá bílastæði í jarðveg og við frágang vegskeringar verði reynt að gera yfirborð og lögun skeringar sem líkasta því sem sjá má í næsta nágrenni og að gengið verði frá gamalli námu sunnan hótelsins.

Þá kom jafnframt úrskurður í vikunni þar sem Umhverfisstofnun hafnaði breytingatillögu á aðalskipulagi Skútustaðahrepps vegna áforma Icelandair Hotels um að stækka Hótel Reykjahlíð. Í sumar skrifuðu 66% íbúa eða um 200 manns á undirskriftalista þar sem uppbyggingunni var mótmælt.

Gámavöllur, leikskólalóð og fjárhagsáætlun
Á meðal annarra mála sem unnið hefur verið að upp á síðkastið er nýr gámavöllur/endurvinnslumóttaka og lóð leikskólans. Leyfi hefur fengist hjá landeigendum Grímsstaða að gámasvæðið í núverandi mynd verði tekið í notkun síðar í mánuðinum til reynslu í vetur og verður það auglýst vel þegar þar að kemur. Gámaþjónustan mun þjónusta gámasvæðið en starfsmaður sveitarfélagsins mun hafa eftirlit. Afar mikilvægt er að við leggjumst öll á eitt um að umhirða um nýja svæðið verði til fyrirmyndar. Staðsetning svæðisins verður svo endurskoðuð í vor í samvinnu við landeigendur áður en svæðið verður girt af og farið í frekari frágang.

Fyrsti áfangi af þremur á nýrri leikskólalóð er langt kominn. Í síðustu viku var haldinn samráðsfundur vegna framkvæmdanna með helstu hagsmunaaðilum varðandi framhaldið og línur lagðar. Meðal annars ætlar foreldrafélag leikskólans að aðstoða við að tyrfa í blíðunni þessa dagana. Lokið verður við að girða lóðina af á næstu vikum og settur myndarlegur hóll fyrir krakkana til að notast við í snjónum í vetur. Annara frágangur bíður vors.

Vinna við fjárhagsáætlun fyrir næsta ár er komin á fullt. Skylda er að afgreiða árlega fjárhagsáætlun fyrir komandi ár og þrjú ár þar á eftir, þ.e. fjögurra ára áætlun fyrir sveitarfélagið. Sveitarstjórn skal fjalla um fjárhagsáætlunina á tveimur fundum og skal fjárhagsáætlunin vera afgreidd í sveitarstjórn eigi síðar en 15. desember.

Markmið sveitarstjórnar Skútustaðahrepps: Árin 2017 – 2020. Rekstur A-hluta sveitarfélagsins verði í jafnvægi, þ.e. skatttekjur og þjónustutekjur standi undir rekstri málaflokka og sjóða A-hluta. Jákvæð rekstrarniðurstaða samstæðu, þ.e. A- og B-hluta, sem jafnframt standi undir framkvæmdum án lántöku þannig að skuldahlutfall fari undir 50% á tímabilinu. Vinnuáætlunin byggir á því að fyrri umræða fari fram 23. nóvember og endanleg fjárhagsáætlun fyrir árið 2017 og rammaáætlun 2018 – 2020 verði samþykktar í sveitarstjórn 7. desember 2016.

Nýtt mála- og skjalakerfi
Í stjórnsýslunni hefur jafnframt verið unnið að breytingum. Fjárfest hefur verið í mála- og skjalakerfi frá Onesystems og er unnið að innleiðingu þess þessa dagana. OneRecords er öflug lausn sem auðveldar sveitarfélaginu og stjórnendum þess að halda utan um þau mál sem eru í gangi á hverjum tíma. Jafnframt er verið að innleiða fundakerfi og fundamannagátt sem er lausn sem auðveldar allt vinnferli við fundarboðanir, fundargerðir og dreifingu þeirra til fundarmanna og nefndarmanna þannig að öll fundarboð og gögn sem þeim tengjast verður rafrænt. Síðast en ekki síst er unnið að innleiðingu málakerfis fyrir skipulags- og byggingafulltrúa. Það nefnist Oneland sem auðveldar skipulags- og byggingafulltrúa að halda utan um þau mál sem eru í gangi á hverjum tíma ásamt því að halda fullu öryggi á einstökum skjölum.

Takk fyrir góðar móttökur
Hér er stiklað á stóru og þessi fyrsti pistill í lengsta lagi. Nóg er af verkefnunum og tilhlökkun að takast á við þau. Á þessum stutta tíma hér í Mývatnssveit hef ég fengið mjög góðar móttökur hjá sveitarstjórn, starfsfólki sveitarfélagsins og þeim Mývetningum sem ég hef kynnst. Ég er mjög þakklátur fyrir það. Á næstu vikum stefni ég að því að heimsækja fleiri vinnustaði og kynnast fleira fólki hér í sveitinni. Ætlunin er pistil sveitarstjóra birtist tvisvar í mánuði, í kjörfar sveitarstjórnarfunda.

Bestu kveðjur Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri.