Fyrsta plata Kjass flutt í heild sinni

0
259

Hljómsveitin Kjass heldur tvenna tónleika, á Akureyri og í Mývatnssveit milli jóla og nýárs. Á tónleikunum verða flutt upplífgandi frumsamin rokk-og popplög en jafnframt verður fyrsta plata sveitarinnar “Rætur” flutt í heild sinni í fyrsta sinn. Platan sem er á síðasta hluta meðgöngunnar inniheldur útsetningar Fanneyjar Kristjáns Snjólaugardóttur á hefðbundnum íslenskum sönglögum.

“Þessi árátta mín að útsetja íslensk sönglög er sprottin upp úr einhverskonar ættjarðarást sem flestir Mývetningar drekka inn með móðurmjólkinni hvort sem þeim líkar betur eða verr. Þar eru þessi gömlu lög sungin á öllum samkomum og standa mínum rótum því nærri.

Ég hugsa útsetningarnar alltaf út frá túlkuninni á lögunum en með nýjum hljómum og breyttum takti næ ég að færa lögin nær hjarta mínu og það skilar sér vonandi til áheyrenda.”

Hljómsveitin er skipuð úrvals hljóðfæraleikurum á sínu sviði.

Anna Gréta Sigurðardóttir útskrifast úr djasspíanóleik frá Kungliga Musighögskolan í Stokkhólmi í vor. Anna var valin bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum 2015 og skal engan undra, því píanóleikur hennar lætur engan ósnortinn sem á hlýðir.

Mikael Máni Ásmundsson er einnig á lokametrunum í djassgítarnámi í Conservatorium von Amsterdam. Hann er einn efnilegasti gítarleikari sem Ísland hefur alið.

Tómas Leó Halldórsson sem útskrifaðist nýlega úr FÍH, er í hljómsveitinni KYN og fleirum. Spilagleði Tómasar er einstök og ekki margir bassaleikarar sem slá honum við.

Rodrigo Lopes, latin-trommarinn knái situr að þessu sinni við trommusettið, en hann hefur einstakt lag á að ljá lögum sinn stíl.

Tónleikarnir eru styrktir af Akureyrarstofu og verða haldnir í Akureyrarkirkju fimmtudagskvöldið 28.des kl 20:00 og í Reykjahlíðarkirkju þann 29. desember kl 20:00. Aðgangseyrir 2000 og frítt fyrir börn yngri en 16 ára. 1500 fyrir námsmenn, öryrkja og eldriborgara. Miðar fást á tix.is