Fyrirhugaðri skólphreinsistöð í Reykjahlíð mótmælt – Valmöguleikar takmakaðir vegna landsskorts

Íbúar óttast skolp- og lyktarmengun

0
506

Tæp­lega 60 íbú­ar í Skútustaðahreppi hafa skrifað undir og skilað inn und­ir­skrift­arlista til skrifstofu Skútustaðahrepps, þar sem fyr­ir­hugaðri skólp­hreins­istöð í Reykja­hlíð er mót­mælt. Frá þessu segir vef Mbl.is í gær.  Mótmælin snúa að staðsetningu stöðvarinnar en gert er ráð fyrir að skólphreinsistöðinn verði innan þéttbýlismarka Reykjahlíðarþorps.

Eftirfarandi texti fylgdi með undirskriftunum.

Til sveitarstjórnar Skútustaðahrepps.

Við undirritaðir íbúar þéttbýlisins  í Reykjahlíð viljum með þessu skjali mótmæla staðarvali fyrirhugaðrar skolphreinsistöðvar við Sniðilsveg.

Við teljum óásættanlegt að leggja siturlögn á mjög opið og hellaskotið hraunið þar sem enginn veit hvert vökvi og lykt frá siturlögn lendir. Óhjákvæmilega verða truflanir á rekstri stöðvar sem þessarar, svo sem nýleg dæmi sanna og þá verður mikil hætta á skolp- og lyktarmengun. Einnig er óljóst hvaða leiðir vatn frá stöðinni muni fara til Mývatns, ekki síður en vatn frá sundlauginni.

Væntanlega mun þurfa að tæma föst efni frá stöðinni miklu oftar en nú tíðkast við gömlu rotþrærnar. Við teljum því einboðið að stöðina beri að staðsetja fjær íbúabyggð og niðurdæling sé eini ásættanlegi kosturinn í Mývatnssveit.

Að lokum viljum við benda á að hætt er við að einhverjar húseignir á svæðinu muni  falla  í verði, ef af þessum áformum verður.

“Við teljum mjög óheppilegt og ekki bjóðandi að vera með skipulagsauglýsingar í gangi yfir há sumarið af augljósum ástæðum en það gerist ár eftir ár. Hér er margt fólk í botnlausri vinnu yfir sumarið og svo er fólk að sjálfsögðu einnig í fríi, með gesti og fleira og fleira”, sagði Ásdís Illugadóttir í spjalli við 641.is í dag, en Ásdís var ein af þeim sem stóð fyrir undriskriftarsöfnuninni. 75% íbúanna í þéttbýlinu í Reykjahlíð settu nafn sitt undir. Þ.e.a.s. þeim sem boðið var upp á að skrifa undir og þó nokkuð af fólki var í burtu í fríi og því ekki við, að sögn Ásdísar.

Skútustaðahreppur áformar breytingu á Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 2011-2023 þannig að gert verði ráð fyrir skólphreinsistöð við Sniðilsveg vestan Múlavegar í Reykjahlíð. Breytingin felst í því að vestasta hluta athafnasvæðis 117-A verður breytt í iðnaðarsvæði. Jafnframt verður deiliskipulagi breytt og ný iðnaðarlóð skilgreind við Sniðilsveg. Skipulagslýsing og matslýsing skólphreinsstöðvarinnar eru aðgengilegar á vef Skútustaðahrepps.

Mynd tekin skammt norðan fyrirhugaðs svæðis fyrir hreinsistöð. Horft til austurs að athafnalóðum við
Múlaveg.

Valmöguleikar takmakaðir vegna landsskorts

Að sögn Helga Héðinssonar sveitarstjórnarmanns í Skútustaðahreppi og formanns skipulagsnefndar Skútustaðahrepps er fyrirhuguð staðsetning skólphreinsistöðvarinnar innan leigulands Skútustaðahrepps, en vegna landsskorts í Skútustaðahreppi séu valmöguleikarnir ákaflega takmarkaðir. Staðarvalið hreinsistöðvarinnar byggist annars vegar á því hvaða aðgang sveitarfélagið hefur að landi og lóðum, en allt land í Reykjahlíð er eignarland. Umrætt svæði er á landi sem sveitarfélagið hefur á leigu auk þess sem það er í nokkurri fjarlægð frá Mývatnin. Í frumhönnun kerfisins er miðað við þessa staðsetningu þar sem ekki töldust liggja fyrir aðrir raunhæfir kostir.

“Við þetta má bæta að fyrirhuguð skipulagsbreyting vegna staðsetningar skólphreinsistöðvarinnar er á frumstigi og langt í frá að fólk hafi misst af lestinni við að koma sinni skoðun á framfæri sem ég hvet sem flesta til að gera”, sagði Helgi.

Hér má skoða Skipulags og matslýsinguna fyrir skólphreinsistöðina