Fundir forsætisráðherra Norðurlandanna við Mývatn og á Akureyri

0
83

Fundur forsætisráðherra Norðurlandanna verður haldinn við Mývatn 26. maí nk. í boði Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. Á fundinum verða norræn málefni, þ.á.m. formennska Íslands í Norrænu ráðherranefndinni, til umfjöllunar en einnig efnahagsmál og stjórnmálaþróun í Evrópu. Þá eru alþjóðamál á dagskrá fundarins og mun þar bera hæst staða mála í Úkraínu. Einnig mun ráðherrunum gefast kostur á að skoða sig um við Mývatn. Frá þessu er greint á vef Forsætisráðaneytisins

Forsætisráðaneytið

Hinn 27. maí nk. munu forsætisráðherrarnir einnig eiga fund með formönnum landsstjórna Færeyja, Grænlands og Álandseyja, auk framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar og forseta Norðurlandaráðs, og mun fundurinn fara fram í Hofi á Akureyri. Á dagskrá fundarins eru málefni norðurslóða, auk málefna sem tengjast Norrænu ráðherranefndinni og Norðurlandaráði.

Forsætisráðherrar Norðurlandanna munu halda af landi brott um hádegisbilið hinn 27. maí, en formenn landsstjórnanna munu þann dag kynna sér starfsemi á Akureyri sem tengist norðurslóðum. Dagskránni lýkur með skoðunarferð um Tröllaskaga m.a. með viðkomu á Dalvík og Siglufirði.