Frumvörp um kísilver og uppbyggingu innviða komin fram

0
72

Frumvörp Steingríms J. Sigfússonar atvinnuvegaráðherra til laga um kísilver í landi Bakka og uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi þar voru lögð fram á Alþingi í gærkvöld.

Bakki-Bakkahöfði.
Bakki-Bakkahöfði.

Á fréttavef Morgunblaðsins segir svo frá:

“Uppbygging á hafnarmannvirkjum Húsavíkurhafnar og vegtenging frá höfninni að landi Bakka er forsenda þessa að unnt verði að fá iðnfyrirtæki til að hefja byggingu og rekstur atvinnustarfsemi á svæðinu.

 

Í nýju frumvarpi ráðherra er að finna heimild fyrir ríkissjóð til að fjármagna uppbyggingu nauðsynlegra innviða.

Annars er að finna heimild til að semja við Vegagerðina um gerð vegtengingar milli Húsavíkurhafnar og iðnaðarsvæðisins á Bakka sem kostar allt að 1.800 millj. kr., miðað við verðlag í lok árs 2012. Hins vegar að semja við hafnarsjóð Húsavíkurhafnar um víkjandi lán til hafnarframkvæmda fyrir allt að 819 millj. kr., miðað við verðlag í lok árs 2012.

Heimild sú sem lögð er til með frumvarpinu er bundin þeirri forsendu að vinna hefjist ekki við umræddar framkvæmdir fyrr en að undirritaðir hafi verið nauðsynlegir samningar, svo sem fjárfestingarsamningur, og eftir atvikum að fyrir liggi undirritaðir samningar milli fyrirtækis sem hyggst reisa og reka atvinnustarfsemi á Bakka og Landsvirkjunar og Landsnets.

Eins og greint var frá á mbl.is líka í gærkvöld var einnig lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um heimild til samninga um kísilver í landi Bakka í Norðurþingi”. (mbl.is)