Frostpinnarnir með jólatónleika í Bárðardal

0
157

Næstkomandi laugardag, 20. desember, halda Frostpinnarnir sína árlegu jólatónleika. Tónleikarnir verða í Kiðagili í Bárðardal og hefjast kl. 20. Frostpinnana skipa Anna Sæunn Ólafsdóttir, Dagný Ósk Auðunsdóttir, Hjördís Ólafsdóttir, Karl Pálsson, Ólafur Ólafsson og Vallý Sigurðardóttir. Þetta árið verður Dagný Ósk þó fjarverandi og Frostpinnarnir því 5 talsins.

frostpinnarnir

Frostpinnarnir hófu feril sinn með litlum jólatónleikum í heimasveit meirihluta hópsins, Bárðardal, en eru óðum að bæta við sig og munu spila víðar á árinu 2015. Þetta er í þriðja skiptið sem Frostpinnarnir halda jólatónleika en í fyrsta skiptið sem hópurinn fær gesti. Sérstakir gestir á tónleikunum verða Einar Ingi Hermannson og Hlini Jón Gíslason.

,,Við spilum bæði þekkt jólalög og önnur sem eru ekki alveg eins þekkt“, segir Karl Pálsson, Frostpinni og undirleikari. ,,Í ár koma lögin úr öllum t.d. frá Ingibjörgu Þorbergs, Borgardætrum, Sissel, Sigurði Guðmunds og Nightmare Before Christmas auk þess sem tvö frumsamin jólalög verða frumflutt.“

Karl segir  tónleikana hafa fengið góðar viðtökur. ,,Fólkið er farið að líta á þeta sem fastan lið og það er venjulega ágætlega mætt. Það eru ekki margir sem leggja í langa ferð til að sjá okkur en við höfum þessi kvöld mjög kósý og stresslaus svo það er líka kjörið fyrir fólk að skreppa út í sveit, úr stressinu, og eiga notalega stund.“

Nánari upplýsingar um Frostpinnana má finna á Facebook síðu þeirra.