Framtíð sorpbrennslunnar óráðin

0
72

Óvissa ríkir um framtíð sorpbrennslu á Húsavík. Erlent samstarf er hugsanlegt auk þess sem vonast er til að breytingar á reglugerðum um urðun og brennslu skapi rekstrargrundvöll fyrir sorpbrennslustöð á Norðurlandi. Í fyrra leit út fyrir að loka þyrfti Sorbrennslunni á Húsavík vegna erfiðleika í rekstri. Stöðin er þó enn starfrækt og nú leita menn ýmissa leiða til að halda brennslu þar áfram.

DeliverFile

„Það hafa haft erlendir aðilar samband við okkur með mögulegt samstarf í huga og það er nokkuð sem við þurfum að skoða og í fullri alvöru en í sjálfu sér erum við ekki til í að segja neitt meira um það í bili.“

Og fleira varð til þess að menn ákváðu að bíða með að skella í lás. Í umhverfisráðuneytinu var skipaður starfshópur um förgun úrgangs en hann á að skila tillögum sínum á næstu vikum. „Við erum núna að bíða eftir niðurstöðum þess starfshóps og það er eiginlega lykillinn að framhaldinu hjá okkur,“ segir Hafsteinn Hörður Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sorpsamlags Þingeyinga.

Árið 2010 voru starfræktar sex sorpbrennslur á Íslandi. Fjórum þeirra hefur nú verið lokað annars vegar vegna díoxínmengunar og hins vegar vegna þess að undanþágur voru felldar úr gildi. Tvær eru eftir. Á Húsavík og í Reykjanesbæ.

Það er mat umhverfisráðuneytisins að hér á landi þurfi að starfrækja að minnsta kosti eina sorpbrennslustöð. Samkvæmt nýrri matvælalöggjöf EES á til að mynda að brenna sýkt dýrahræ og allan sóttmengaðan úrgang. Það gæti skapað rekstrargrundvöll fyrir fleiri en eina sorpbrennslustöð. Hafsteinn sér fyrir sér að stöðin á Húsavík geti þjónað Norður- og Austurlandi.

„Þá þyrfti náttúrulega að koma til akstur á úrgangi til okkar og það er það sem hræðir marga,“ segir Hafsteinn. „Þetta er dálítið snúið mál og erfitt að fá menn saman að borðinu til að ræða í alvöru samstarfsmöguleikana,“ segir Hafsteinn. rúv.is