Framsókn fyrir heimilin – Framsókn fyrir atvinnulífið

0
111

Undanfarin fjögur ár hefur Framsóknarflokkurinn lagt áherslu á tvö meginverkefni. Annars vegar að vinna á þeim vanda sem stökkbreytt húsnæðislán valda heimilum landsins og hins vegar að skapa aðstæður fyrir fjárfestingu og uppbyggingu í atvinnulífi til að fjölga störfum og bæta kjör. Frumforsenda þess að hægt sé að ná árangri í þessum málum er að efnahagsmál verði tekin föstum tökum og að efnahagslegu sjálfstæði landsins sé tryggt. Sem betur fer hefur tekist að koma í veg fyrir stór mistök á því sviði, og ber Iceasve málið þar að sjálfsögðu hæst.

Sigmundur og Höskuldur
Sigmundur og Höskuldur

Fyrir vikið höfum við enn stjórn á eigin framtíð. Verkefnin eru auðvitað stór og mörg þeirra jafnvel erfiðari nú en þegar fráfarandi ríkisstjórn tók við völdum. Ástæðan er sú að tækifærin hafa ekki verið nýtt á undanförnum árum.

 

 

Í byrjun árs 2009 bentu framsóknarmenn á mikilvægi þess að nýta þau tækifæri sem þá gáfust til að leiðrétta lán heimilanna. Það er óskiljanlegt hvers vegna sú leið var ekki farin. Fyrir vikið er málið nú orðið mun flóknara en það var.

Verkefnið liggur samt fyrir og á því verður að taka. Það verður ekki án kostnaðar og það verður ekki auðvelt. Það eru því miður engin auðveld verkefni í íslenskum efnahagsmálumþessa dagana. En Framsóknarflokkurinn er tilbúinn að takast á við verkefnið.

Vognunarsjóðirnir sem keyptu sig inn í þrotabú föllnu bankanna hafa hagnast gríðarlega á þeirri fjárfestingu sem þó er enn bundin í höftum og háð lögum um útgreiðslu úr þrotabúum. Það er sanngjarnt og eðlilegt að þegar losað verður um þetta fjármagn samhliða eftirgjöf krafna fái skuldsett heimili, sem borið hafa tjónið af hruninu, hlutdeild í því.

Í kjölfarið þarf að taka á verðtryggingunni svo að sams konarþróun eigi sér ekki stað aftur. Verðtryggingin þjónaði mikilvægu hlutverki þegar hún var sett á á sínum tíma en nú hefur kerfið aðlagað sig að verðtryggingunni og hún er farin að ýta undir verðbólgu. Auk þess þarf að tryggja að lánþegar verði ekki fyrir skaða af óhóflegum sveiflum á vaxtastigi.

Mikilvægast er þó að fólk fái tækifæri til að vinna sig út úr vandanum. Til þess þarf að skapa næga atvinnu fyrir alla. Baráttan við atvinnuleysið er eitt stærsta verkefnið sem við stöndum frammi fyrir og þar verða stjórnvöld að leiða sókninameð því að skapa fyrirtækjum, stórum og smáum, jákvætt rekstrarumhverfi. Það verður að einfalda skattkerfi og regluverk svo að atvinnurekstur geti vaxið og dafnað og skapað fleiri störf. Það þarf að skapa jákvæða hvata og stöðugleika til að laða að fjárfestingu í atvinnulífi. Aðeins með nægri atvinnu fyrir alla og betur launuðum störfum mun samfélagið komast aftur á réttan kjöl.

Fyrir dyrum standa einar mikilvægstu alþingiskosningar síðari tíma á Íslandi. Þar verður ákveðið hvaða stefna mun marka framtíð íslensku þjóðarinnar næstu árin. Breytum um stefnu. Veljum Framsókn fyrir heimilin. Framsókn fyrir atvinnulífið. Framsókn fyrir Ísland.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Höskuldur Þór Þórhallsson