Framkvæmdaleyfi Þingeyjarsveitar vegna Þeistareykjalínu 1 fellt úr gildi – Framkvæmdaleyfi vegna Kröflulínu 4 stendur

0
84

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafnaði í dag kröfu Landverndar um ógildingu framkvæmdaleyfis sveitastjórnar Þingeyjarsveitar um framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4. Við það fellur niður stöðvun á hluta línuleiðarinnar og Landsnet því með gild framkvæmdaleyfi á allri fyrirhugaðri línuleið Kröflulínu 4.  Þá er mögulegt að halda áfram framkvæmdum sem hafnar voru fyrir bráðabirgðaúrskurð um stöðvun en eftir er að ljúka eignarnámsmálum í landi Reykjahlíðar. Frá þessu segir á vef landsnets í dag.

Hólasandur - Tölvugerð mynd
Hólasandur – Tölvugerð mynd

Framkvæmdaleyfi Þeistareykjalínu 1 fellt úr gildi

Nefndin felldi úr gildi framkvæmdaleyfi Þingeyjarsveitar fyrir Þeistareykjalínu 1 en framkvæmdir á svæðinu voru ekki hafnar. Niðurstöðum svipar til  úrskurðar vegna framkvæmdaleyfis Skútustaðahrepps vegna Kröflulínu 4. Landsnet reiknar með að sveitafélagið taki málið fyrir að nýju og fari yfir þær athugasemdir sem fram komu í úrskurðinum.

 

Landvernd kærði í sumar útgáfu framkvæmdaleyfa í Norðurþingi, Skútustaðahreppi og í Þingeyjarsveit. Úrskurðarnefnd umhverfis og auðlindamála komst að þeirri niðurstöðu í byrjun október, að ógilda þyrfti framkvæmdaleyfið í Skútustaðahreppi. Sveitarstjórnin gaf í svo út nýtt framkvæmdaleyfi í gær, þar sem bætt var úr þeim göllum sem voru á málsmeðferð við veitingu fyrsta leyfisins. Norðurþing slapp með skrekkinn – þar taldi úrskurðarnefnd ekki ástæðu til að ógilda framkvæmdaleyfið. Í dag komst nefndin svo að þeirri niðurstöðu að Þingeyjarsveit hefði staðið rétt að veitingu framkvæmdaleyfis fyrir Kröflulínu, en ekki fyrir Þeistareykjalínu. (Rúv.is)

Jarðvinna heldur áfram

Verktakar Landsnets höfðu unnið í rúmlega tvo mánuði við að leggja línuna þegar framkvæmdir voru stöðvaðar. Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets segir að framkvæmdir muni hefjast strax, innan Skútustaðahrepps. „Framkvæmdaleyfið sem við fengum í gær, það gerir okkur kleift að halda áfram með þá jarðvinnu sem við vorum byrjuð með,“ segir Steinunn. (Rúv.is)

Á heimasíðu www.uua.is má nálgast úrskurðina.