Frá foreldrafélögum við Þingeyjarskóla

0
74

Eins og vitað er sendu foreldrafélögin við Þingeyjarskóla út könnun til foreldra barna skólans þar sem kannaður var hugur þeirra til skólahalds við Þingeyjarskóla. Áætlað var að birta niðurstöður könnunarinnar á 641.is þegar þær lægju fyrir. Hinsvegar kom í ljós að tæknilegur ágalli var á framkvæmd könnunarinnar og hægt var að svara henni oft.

Foreldrakönnun

 

Þetta nýtti einstaka aðili sér og því var ákveðið að birta ekki niðurstöður.

 

 

Ekki skiptir máli hvort könnunin er enn opin á netinu þar sem niðurstöðurnar voru reiknaðar út frá svörum sem bárust fyrir miðnætti laugardaginn 15. febrúar 2014.

Ekki hefur verið ákveðið hvort önnur könnun verður framkvæmd eða með hvaða hætti.

Formenn foreldrafélaganna harma að foreldrar hafi fyrst fengið fréttir af þessu á opinberri vefsíðu, þar sem til stóð að taka ákvörðun um framhaldið og senda út tölvupóst með þessum upplýsingum á foreldra strax eftir helgi. Ritstjóri 641.is var sl. laugardag beðinn um að bíða með umfjöllun um málið þar til ákvörðun lægi fyrir.

Fyrir hönd foreldrafélaga Þingeyjarskóla
Sigríður Guðmundsdóttir
Víðir Pétursson

 

 

Athugasemd frá ritstjóra. Það rétt það sem kemur fram í þessari tilkynningu frá foreldrafélögunum að ritstjóri hefði verið beðinn um að bíða með umfjöllun um könnunina. Hinsvegar voru “niðurstöðurnar” farnar að “leka” út í samfélaginu á laugardag og sunnudag ma. til 641.is og því ómögulegt að bíða með umfjöllun, enda varðar málið marga íbúa Þingeyjarsveitar. Íbúarnir voru farnir að bíða eftir niðurstöðunum og sumir foreldrar voru sárir yfir því að fá ekki boð um þátttökt í könnuninni. Þar fyrir utan er ekki hægt að biðja fjölmiðil um að “bíða” með umfjöllun um eitthvað mál. Það er og verður alltaf ákvörðun fjölmiðilsins sjálfs hvort hann “bíður” með að birta eitthvað eður ei. Það getur verið réttlætanlegt að bíða þegar um mjög viðkvæm mál er að ræða en svo var ekki í þessu tilfelli.