Föstuganga í Laufásprestakalli föstudaginn langa

0
263

„En maður nokkur átti leið þar hjá og var að koma utan úr sveit. Hann neyða þeir til að bera kross Jesú. Það var Símon frá Kýrene, faðir þeirra Alexanders og Rúfusar. Þeir fara með Jesú til þess staðar er heitir Golgata, það þýðir hauskúpustaður.” (Markúsarguðspjall 15. kafli)

Á föstudaginn langa 30. mars næstkomandi verður föstuganga (ganga með Kristi) haldin í Laufásprestakalli og það í 8. skiptið síðan árið 2010. Gengið verður frá þrem stöðum í prestakallinu í Laufás. Lagt verður af stað kl. 11.00 frá Svalbarðskirkju í Laufás (16km) Björgunarsveitin Týr á Svalbarðsströnd vaktar gönguna. Lagt verður af stað kl. 11.00 frá Végeirsstöðum í Fnjóskadal (16km) í Laufás.

Björgunarsveitin Þingey í Þingeyjarsveit vaktar gönguna. Lagt verður af stað kl. 12.00 frá Grenivíkurkirkju (9km) í Laufás. Björgunarsveitin Ægir Grenivík vaktar gönguna. Fólki er vitanlega frjálst að koma inn í göngurnar hvar sem er. Hver ganga hefst á orði og bæn. Mikilvægt er að hafa með sér nóg af vatni og góða skó fyrir gönguna. Í þjónustuhúsinu í Laufási verður hægt að kaupa sér súpu og aðrar veitingar við komu og verður veitingasala í umsjá veitingastaðarins Kontórsins á Grenivík.

Tónleikar verða í Laufáskirkju kl. 14.30. Þeir Gunnar Björn Jónsson og Þorkell Pálsson syngja við undirleik Petru Bjarkar Pálsdóttur. Aðgangur er ókeypis. Það er sannarlega notalegt að láta líða úr sér í fallegri kirkju og hlýða á ljúfa tóna eftir hressandi göngu.

Verið öll hjartanlega velkomin og gleðilega páskahátíð!