Fjölskylduvæn ferðaþjónusta í Reykjadal

0
183

Á fundi Fundafélagsins í Dalakofanum á Laugum í gærkvöld sagði Hólmfríður Sólveig Haraldsdóttir frá rannsókn sinni og BA ritgerð við Háskólann á Hólum. BA-ritgerðin heitir “Áhugi á fjölskylduvænni ferðaþjónustu í Reykjadal” en það var viðfangsefnið hennar þegar hún útskrifaðist frá Hólum í Hjaltadal sem ferðamálafræðingur. Rannsóknin fólst í því að taka viðtöl við nokkra aðila sem eru starfandi í ferðaþjónustu í Reykjadal.  Samhliða gerði hún símakönnun meðal íbúa sveitarinnar um viðhorf til ferðaþjónustu.  Í því úrtaki voru um 20 manns.

Hólmfríður Sólveig Haraldsdóttir frá Jaðri í Reykjadal

 

Í Reykjadal eru mörg tækifæri til að hlúa að ferðaþjónustu sem atvinnugrein. Reykjadalur er í alfaraleið milli landshluta og liggur nærri mörgum þekktum ferðamannastöðum. Þar er veðursæld, gistimöguleikar, sundlaug, tjaldstæði, matsölustaðir og verslun svo eitthvað sé nefnt.

 

Forvitnilegt er því að vita um viðhorf íbúa sveitarinnar til uppbyggingar ferðaþjónstu með betri nýtingu þess sem fyrir er og meiri atvinnu fyrir heimamenn.

Í rannsókn Hólmfríðar kom skýrt fram að almennt er mjög gott viðhorf til ferðaþjónustu á meðal íbúa í Reykjadal. Allir viðmælendur töldu hér góðan grundvöll fyrir ferðaþjónustu og fólk var afar jákvætt í garð þessarar atvinnugreinar.  Sú aðstaða sem er nú þegar fyrir hendi fékk góða einkunn hjá heimamönnum, en ábendingar komu fram um að tjaldsvæði vantaði við íþróttavöllinn og sundlaugina.  Heimamenn telja byggðina hafa mikið aðdráttarafl fyrir ferðafólk og þeir hafa litlar áhyggjur af neikvæðum áhrifum á náttúru og umhverfi.  En meirihluti svarenda taldi ekki nægilega hugað að þörfum barna ferðamanna í Reykjadal.

Um stefnumörkun sveitarfélagsins í ferðamálum virtust aðspurðir lítið vita. Hólmfríður útskýrði í erindi sínu stefnu Þingeyjarsveitar og áherslur í ferðamálum eins og hún birtist í aðalskipulagi sveitarfélagsins.

Helstu niðurstöður í rannsókn Hólmfríðar eru þær að áhugi heimamanna á ferðaþjónustu sé verulegur. „Iðandi hugmyndavinna á sér stað um möguleika í ferðaþjónustu hjá kraftmiklu fólki“.  Út frá þessum áhuga mætti finna svör við spurningum er lúta að markaðsmálum og eftirspurn.  Sem dæmi um markhóp nefndi hún gamla Laugaskólanema. Í Reykjadal sé góður jarðvegur sé til staðar til að byggja upp ferðaþjónustu sem atvinnugrein.  Einnig að mikilvægi ferðaþjónustunnar sé augljóst fyrir byggðina enda þótt fáir hafi lifibrauð af ferðaþjónustu nú.

Fram kom í umræðum fundargesta að félagsskapurinn „Afþreying í Reykjadal“ sendi styrkumsókn til sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar síðastliðið vor.  Sótt var um peningastyrk til að merkja gönguleiðir með mikilli sjálfboðavinnu heimamanna.  Erindinu var að vísu hafnað vegna formgalla, en þar birtist áhugi heimamanna á fjölskylduvænni afþreyingu fyrir ferðamenn í sveitinni.