Fjögur lömb heimtust í Svartárkoti – Sátu kolföst í óvenju þéttum snjó

Myndbönd

0
1174

“Við sáum eitthvað dökkt í snjónum hinu megin við vatnið (Svartárvatn). Við héldum fyrst að þetta væri hrafn eða kanski tófa, en það var of kalt til að fljúga drónanum á staðinn til í kíkja á þetta. Í gær dró nokkuð úr frosti og þá sendum við drónann til að gá hvað þetta væri og þá sáum við að þetta voru tvær gráar gimbrar og var önnur þeirra föst í snjónum, eins og sést á myndbandinu”, sagði Sigurlína Tryggadóttir bóndi í Svartárkoti í Bárðardal í spjalli við 641.is nú í kvöld. Í gær og í dag heimtust fjögur lömb þar á bæ sem sátu kolföst í óvenju þéttum snjó sem kyngdi niður í norðanáhlaupinu í síðustu viku.

Í dag fann svo eiginmaður Sigurlínu, Magnús Skarphéðinsson, tvo lambhrúta á lífi og var annar þeirra kolfastur í snjónum og stóð aðeins hausinn upp úr. Refur eða refir höfðu greinilega haft nokkurn áhuga á hrútunum því refaslóðir voru í næsta nágrenni við þá. Magnús taldi það hugsanlegt að hefði hrúturinn verið einn á staðnum væri ekki víst að hann væri á lífi þar sem þekkt er að tófur ráðist á fé sem situr fast í fönn, þar sem það á erfitt með að verja sig og getur ekki forðað sér. (Sjá myndbandið hér fyrir neðan)

“Ég fór með lausa hrútinn heim á vélsleða og kom svo til baka með skólfu til að moka hinn upp. Snjórinn var glerharður í kringum hann og mjög þéttur og ég efast um að hann hefði losnað af sjálfsdáðum”, sagði Magnús

Öll þessi lömb höfðu heimst í fyrstu smölun en struku síðan úr túninu og var Magnús ánægður með að hafa heimt þau núna og sérstaklega hvíta hrútinn, þar sem hann hafði komið til greina sem ásetningur nú í haust.

“Rúningi er því ekki alveg lokið hjá okkur”, sagði Magnús glaður í bragði við tíðindamann 641.is í kvöld.