Fjárhagsáætlun Þingeyjarsveitar 2018-2021 samþykkt – Áætluð rekstrarniðurstaða fyrir árið 2018 jákvæð um 25 m.kr

Gert ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu öll árin

0
278

Fjárhagsáætlun Þingeyjarsveitar 2018-2021 var lögð fram til síðari umræðu og afgreiðslu ásamt þeim breytingum sem gerðar hafa verið milli umræðna, á sveitarstjórnarfundi sem haldinn var sl. fimmtudag. Sveitarstjóri gerði grein fyrir fjárhagsáætluninni ásamt skrifstofustjóra.

Í fjárhagsáætlun 2018 eru áætlaðar skatttekjur 894,5 m.kr. en heildartekjur 1.086,7 m.kr. Áætluð rekstrarniðurstaða A hluta er jákvæð um 25 m.kr. og rekstrarniðurstaða samstæðu A og B hluta er jákvæð um 14 m.kr. Veltufé frá rekstri er áætlað 59,3 m.kr. Áætluð upphæð til fjárfestingar er 39 m.kr. Gert er ráð fyrir nýrri lántöku á árinu 2018 að fjárhæð 60 m.kr. en ekki var þörf á að taka það 75 m.kr. lán sem áætlað var að taka á árinu 2017. Í áætlun fyrir árin 2019, 2020 og 2021 er gert ráð fyrir  jákvæðri rekstrarniðurstöðu A hluta og samstæðu A og B hluta öll árin. Helstu fjárfestingar og framkvæmdir á árinu 2018 eru endurbætur á smíðastofunni í Stórutjarnaskóla, frágangur á framkvæmdum í veitum sem og almennt viðhald fasteigna, búnaðarkaup og endurnýjun bifreiða sveitarfélagsins. Einnig eru frekari framkvæmdir við Goðafoss á áætlun.

Oddviti bar framlagða fjárhagsáætlun Þingeyjarsveitar fyrir árið 2018 upp til samþykktar og var hún samþykkt með fimm atkvæðum fulltrúa A lista, Ragnar Bjarnason greiddi atkvæði á móti og Sigurður Hlynur Snæbjörnsson sat hjá. Oddviti bar þriggja ára fjárhagsáætlun Þingeyjarsveitar 2019-2021 upp til samþykktar og var hún samþykkt með fimm atkvæðum fulltrúa A lista. Fulltrúa T lista sátu hjá.

Fulltrúar A lista lögðu fram eftirfarandi bókun:
“Við teljum að framlögð fjárhagsáætlun sé raunhæf og varfærin bæði hvað varðar áætlaðar tekjur og gjöld og lántöku er stillt í hóf”.

Ragnar Bjarnason lagði fram eftirfarandi bókun:
“Ég tel framlagða fjárhagsáætlun Þingeyjarsveitar fyrir árið 2018 vera með rangar áherslur fyrir sveitarfélagið. Hún sýnir hins vegar ákaflega skýrt að kosningaár er að fara í hönd”.

Hér má lesa fundargerðina.