Fimmti pistill sveitarstjóra Skútustaðahrepps

0
188

Gleðilegt ár kæru Mývetningar og bestu þakkir fyrir góða viðkynningu á síðasta ári. Óhætt er að segja að spennandi ár sé framundan í Mývatnssveit því hvarvetna blasir við uppbygging á ýmsum sviðum. Því er fyllsta ástæða til bjartsýni þrátt fyrir að vetur konungur hafi með krafti bankað á dyrnar í upphafi árs. Ég verð var við mikla tilhlökkun og eftirvæntingu í Mývatnssveit þessa dagana fyrir hið árlega þorrablót sem haldið verður 21. janúar n.k. Mér er sagt að verði ég ekki tekinn eitthvað fyrir í skemmtiatriðum þorrablótsins hafi ég ekki látið nógu mikið að mér kveða eftir komu mínahingað norður. Ég bíð mjög spenntur að sjá hvað verður.

Gámastæðið tekið í notkun
Nýtt gámastæði fyrir íbúa Skútustaðahrepps verður tekið í notkun mánudaginn 30. janúar n.k. í landi Grímsstaða. Rétt er þó að hafa fyrirvara um tímasetninguna vegna veðurs. Um leið verður gamla gámastæðinu við Múlaveg lokað. Um þróunarverkefni er að ræða sem unnið er í samstarfi við Þingeyjasveit og Gámaþjónustu Norðurlands.

Allir eigendur fasteigna og sumarhúsa (frístundabyggð) sem greiða sorphirðugjöld fá afhent eitt klippikort á ári. Það felur í sér að skila megi allt að fjórum rúmmetrum af gjaldskyldum úrgangi. Kortið verður hægt að sækja á skrifstofu Skútustaðahrepps. Ef kortið dugir ekki út árið er hægt að kaupa nýtt kort á 8.500 kr. Gjöld rekstraraðila vegna úrgangs sem tekið er á gámastæðið tekur mið af þyngd eða rúmmáli.
Fyrir áætlað lágmarks magn allt að 100 kg. eða 1,5 m³ skal greiða í móttöku og flutningsgjald kr. 4.100 og í urðunargjald kr. 4.400 eða samtals kr. 8.500. Fyrir hvert kíló umfram 100 kg greiðist samtals í móttöku og flutningsgjald 37,12 kr. og 44,10 kr. í urðunargjald og fyrir hvern 1,5 m³ umfram 1,5 m³ bætist 4.100 kr. fyrir móttöku og flutningsgjald og 4.400 kr. í urðunargjald. Ekki er tekið gjald fyrir móttöku á flokkuðum úrgangi sem ber úrvinnslugjald, þar má nefna: pappaumbúðir, plastumbúðir, hjólbarða, heyrúlluplast, ýmis spilliefni og úrelt ökutæki. Opnunartími verður auglýstur fljótlega.

Kynningarbæklingur verður sendur í hús og haldinn verður íbúafundur á vegum Gámaþjónustunnar miðvikudaginn 25. janúar kl. 20:00 í Skjólbrekku þar sem þetta verður kynnt nánar. Verður hann auglýstur fljótlega. Í fjórða áfanga gámastæðisins verður lokið viðað steypa við rampa, setja upp lýsingu, varanlega girðingu og fleira smálegt sem gerir aðgengi og ásýnd betri og verður lokið við það næsta sumar.

Alma Dröfn ráðin skrifstofufulltrúi
Tvær umsóknir bárust um starf skrifstofufulltrúa hjá Skútustaðahreppi. Ákveðið hefur verið að ráða Ölmu Dröfn Benediktsdóttur til starfa og tekur hún við af Sólveigu Erlu Hinriksdóttur sem hefur starfað á skrifstofunni í hartnær tvo áratugi. Alma er 36 ára, hefur lokið B.Sc. í umhverfisskipulagi, hluta af M.Sc. í kennslufræðum og hefur auk þess sveinspróf í hársnyrtiiðn. Hún hefur talsverða reynslu af almennum skrifstofustörfum, bæði í einkageiranum og hjá hinu opinbera. Hún var m.a. verkefnastjóri Staðardagskrá 21 fyrir Hafnarfjarðabæ o.fl. Við bjóðum Ölmu Dröfn velkomna til starfa.

Að undanförnu hefur verið unnið að breytingum innandyra á skrifstofum Skútustaðahrepps. Eftir að leikskólinn fór úr hluta húsnæðisins síðasta sumar hefur plássið verið nýtt í að bæta skrifstofuaðstöðuna, gera nýjan fundarsal, skjalageymslu og bæta kaffiaðstöðu. Þá er gaman frá því að segja að nokkrir aðilar hafa sýnt því áhuga að leigja skrifstofuaðstöðu í opnu rými á skrifstofunum sem auglýst var fyrir skömmu. Á næstunni verður unnið að því að lagfæra aðstöðuna og þarna gæti því myndast skemmtilegt samfélag. Ríkir mikil tilhlökkun með framhaldið.

Sérstakar húsnæðisbætur fyrir nemendur 15-17 ára á heimavist eða námsgörðum
Um áramótin urðu breytingar á lögum um húsnæðisbætur. Ríkið tók yfir almennar húsnæðisbætur og þá hefur sveitarstjórn samþykkt reglugerð um sérstakan húsnæðisstuðning sem má segja að sé tvíþættur. Annars mun félagsþjónusta Norðurþings, f.h. Skútustaðahrepps, annast afgreiðslu umsókna um sérstakan húsnæðisstuðning samkvæmt gildandi reglugerð. Hins vegar ber sveitarfélögum jafnframt að veita sérstakan húsnæðisstuðning til foreldra eða forsjáraðila 15-17 ára barna sem leigja herbergi á heimavist eða námsgörðum hér á landi vegna náms fjarri lögheimili.

Húsnæðisstuðningur vegna 15-17 ára nemenda skal vera óháður tekjum og eignum foreldra eða forsjáraðila. Samkvæmt reglugerð Skútustaðahrepps skal húsnæðisstuðningurinn nema 65% af leigufjárhæð. Sækja skal um á skrifstofu Skútustaðahrepps á þar til gerðu eyðublaði. Með umsókn um slíkan stuðning skal leggja fram afrit af þinglýstum húsaleigusamningi og staðfestingu á námi barns.

Umsóknir um styrki vegna lista- og menningarstarfs 2017
Félags- og menningarmálanefnd Skútustaðahrepps auglýsir hér með eftir umsóknum um styrki vegna lista- og menningarstarfs. Bæði einstaklingar og félagasamtök geta sótt um styrki. Nefndin metur umsóknir með menningarstefnu Skútustaðahrepps að leiðarljósi og leggur fyrir sveitarstjórn tillögur til úthlutunar.

Umsóknareyðublað má nálgast á: http://myv.is/eydublod-gjaldskrar-og-samthykktir/ eða á skrifstofu Skútustaðahrepps. Umsóknum skal skila á skrifstofu Skútustaðahrepps bréfleiðis, eða með tölvupósti á: sveitarstjori@myv.is fyrir 8. febrúar n.k. Nánari upplýsingar varðandi útfyllingu styrkumsókna má nálgast hjá Elísabetu formanni félags- og menningarmálanefndar í síma 894 6318.

Undirbúningur á starfsmannastefnu
Á sveitarstjórnarfundi í gær var lögð fram verkefnisáætlun um undirbúning starfsmannastefnu sveitarfélagsins en hjá Skútustaðahreppi eru ýmis tækifæri til þess að efla mannauðsmál. Rannsóknir sýna að aukin útgjöld til mannauðsmála skila sér margfalt til baka. Samþykkt var að setja á stofn stýrihóp um gerð starfsmannastefnu sem lögð verði fyrir sveitarstjórn. Stýrihópinn skipa sveitarstjóri sem stýrir vinnunni, einn sveitarstjórnarfulltrúi og tveir fulltrúar starfsfólks. Jafnframt var samþykkt að Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir verði fulltrúi sveitarstjórnar í stýrihópnum.

Félagsstarf eldri borgara (60+) – Boðið upp á akstur
Fyrsta samverustund á nýju ári verður í dag fimmtudaginn 12. janúar n.k. Starfið er með hefðbundnum hætti, í íþróttahúsi og grunnskólanum. Sú nýjung verður að þessu sinni að boðið verður upp á akstur í samverustundina á vegum sveitarfélagsins og er eldri borgurum að kostnaðarlausu. Þeir sem ætla að nýta sér aksturinn þurfa að láta vita í hvert skipti, í síðasta lagi daginn fyrir samverustundina, í síma 86 86 821 (Brynja). Gísli Rafn Jónsson sér um aksturinn. Að lokinni samverustund er svo einnig boðið upp á akstur heim.

Ýmislegt
Hafinn er undirbúningur að nýrri heimasíðu Skútustaðahrepps en fyrirtækið Formenn heldur utan um þá vinnu í samstarfi við sveitarstjóra. Fyrstu drög að veftré hefur verið gert og nú er unnið að myndvinnslu og forritun. Vonast er til að heimasíðan verði tilbúin í mars. Það er alltaf ánægjulegt að fá góðar heimsóknir frá þingmönnum kjördæmisins og finna áhuga þeirra á málefnum sveitarfélagsins. Í vikunni leit Steingrímur J. Sigfússon við á sveitarstjórnarskrifstofunum og tók púlsinn á starfsemi sveitarfélagsins.

Þá vek ég athygli á auglýsingu á heimasíðu sveitarfélagsins frá Uppbyggingasjóði Norðurlands sem augýsir eftir umsóknum. Hlutverk sjóðsins er að styrkja menningar-, atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefni, auk þess veitir sjóðurinn stofn- og rekstrarstyrki til menningarmála.

Sem fyrr er hér er stiklað á stóru. Ætlunin er að pistill sveitarstjóra birtist tvisvar í mánuði, í kjölfar sveitarstjórnarfunda.

Bestu kveðjur
Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri