Fikkahátíð 5. mars 2016

0
347

Þingeyska tónskáldið Friðrik Jónsson sem í daglegu tali var kallaður Fikki var fæddur í september 1915 í Reykjadal. Hann lærði ungur á orgel, fyrst hjá föður sínum og síðar hjá Páli Ísólfssyni í Reykjavík.

Friðrik og sonur hans Sigurður Kristján Friðriksson á sviðinu í félagsheimili Húsavíkur
Friðrik og sonur hans Sigurður Kristján Friðriksson á sviðinu í félagsheimili Húsavíkur

 

Friðrik var kirkjuorganisti samfleytt í 48 ár, lengst af við sex kirkjur í Þingeyjarprófastdæmi. Fyrst við Þverárkirkju i Laxárdal frá 1947 og síðar bættust við organistastörf við Neskirkju, Grenjaðarstaðarkirkju, Einarsstaðakirkju, Ljósavatnskirkju og Lundarbrekkukirkju. Friðrik var einnig um skeið organisti við Húsavíkurkirkju og Þóroddsstaðarkirkju. Hann lét af störfum sem kirkjuorganisti er hann varð áttræður haustið 1995.

 

Fikki spilar á orgel í Hliðskjálf
Fikki spilar á orgel í Hliðskjálf

 

Friðrik var söngkennari við héraðsskólann og húsmæðraskólann á Laugum og við barnaskóla í Reykjadal og Aðaldal. Friðrik spilaði á harmoníku frá unga aldri og var um margra áratuga skeið eftirsóttur harmoníkuleikari á dansleikjum víða á Norðausturlandi og var hann síðar gerður að heiðursfélaga í Harmoníkufélagi Þingeyinga. Á tónlistarferli sínum samdi Friðrik fjölmörg lög fyrir einsöngvara, kóra og hljómsveitir sem eru okkur flestum vel kunn. Fikki var sæmdur riddarakrossi (Fálkaorðunni) fyrir störf að félags- og tónlistarmálum árið 1988. Fikki lést árið 1997.

Unnur Sigurðardóttir og Fikki með fálkaorðuna sem hann var sæmdur árið 1988
Unnur Sigurðardóttir eiginkona Friðriks þegar Fikki var sæmdur fálkaorðunni

 

 

Aldarafmælishátið tónskáldsins þar sem við munum minnast þessa merka manns með þakklæti fyrir framlag hans til tónlistar í Þingeyjarsýslum verður haldin þann 5. mars 2016 í Ýdölum með tónleikum og harmónikudansleik.

Að hátíðinni standa kórarnir í Suður Þingeyjarsýslu og Harmónikufélag Þingeyinga.