Fía á Sandi

0
561

 

 

Fía á Sandi er vefari, ljósmyndari, hagyrðingur og fyrrverandi myndlistakennari, . Hún býr á Sandi II ásamt Sigurði Ólafssyni eiginmanni sínum. Hún var svo elskuleg að taka vel í fyrirspurn um viðtal.

Mér sýnist á Búkollu að ættboginn þinn hafi verið ábúendur á Sandi frá 1873.

Ætli það sé ekki rétt. Friðjón langafi var frá Sílalæk og ég held afi sé fæddur þar. Friðjón keypti Sand og afi tók við búi af honum. Afi giftu sig  einhvertíma fyrir aldamótin 1900 Guðrúnu Oddsdóttur frá Hrappsstaðaseli.Þau bjuggu fyrst í tvíbýli móti Sigurjóni bróður hans sem seinna bjó á Litlu Laugum. En afi og amma bjuggu hér allan sinn búskap. Pabbi var fyrsta barn af 12, fæddur 1900.

Guðmundur afi þinn var rithöfundur ásamt búskap. Það er margt vitað um hann. En hann deyr áður en þú fæðist.

Já en ég sé hann fyrir mér. Lágvaxinn, hvikan, fullan af áhuga og alltaf til í rökræður. Hann ferðaðist og hélt fyrirlestra um ýmis málefni. Það sagði mér bóndi að þegar Guðmundur skaust  á skautum milli gegninga, til að heimsækja föður hans. Þá hafi hann falið sig undir stofuborðinu til að hlera. Hann heyrðu karlana heilsast og knúsast setjast að  kaffiborði og byrja að rífast svo hárin risu á höfði stráksa. Svo stökk afi á fætur, faðmaði sinn elsku vin, þakkaði fyrir skemmtunina og dreif sig heim að gefa.

Geturðu sagt okkur eitthvað frá ömmu þinni?

Amma var hæglát og feimin. Alin upp í Garði hjá frænda sínum vegna þess að Sigríður langamma missti manninn frá ómegð . Sigríður flutti til Vesturheims og vildi taka Guðrúnu með en hún neitaði. Amma átti þvi ekki stóran frændgarð og var mest fyrir sinn hóp. Ég man vel eftir henni. Hún lifði fram á tíræðisaldur 1966.  Hún var rúmliggjandi í 18 ár, eftir heilablóðfall en kvartaði aldrei. Sólveig dóttir hennar hjúkraði og sá um heimilið. Menn sögðu að ef komu gestir þegar Solla brá sér af bæ, hafi amma sagt við einhvern piltinn sinn: „Kaffið er í eldhússkápnum kökurnar í búrinu og taktu sparistellið í glerskápnum.“  Amma átti alltaf sælgæti í náttborðinu í skælukaup handa börnum.

En þó öllum beri saman um að amma hafi verið stjórnsöm húfreyja hafði afi forgang. Þau hjónin áttu eitt borð í hjónahúsinu. Það var skrifborð og saumaborð. Sagt var að þegar húsbóndanum datt í hug að skrifa eitthvað hafi amma tekið niður saumavélina orðalaust þó hún væri í miðju verki. Á unga aldri var amma há, dökkeyg og dökkhærð. Í ellinni var hárið á henni  hvítt efst en dökkt neðst af því það var aldrei klippt en alltaf fléttað. Hún var svo grönn að enginn afkomenda hennar kemst í peysufötin þessarar 12 barna móður.

Amma var á undan sinni samtíð í heilbrigðismálum. Lét heimamenn verjast farsóttum með sóttkví og missti  engin börn úr farsótt. Hún notaði vallhumal í te og smyrsl, fjallagrös við öllu og blóðbergste var allra drykkja best.

Fía ásamt foreldrum sínum og systkinum.

Segðu mér frá foreldrum þínum

Pabba langaði kannski að verða menntamaður Hann gekk á skíðum austur í Eiða þó komið væri fram á vetur til að komast í skóla og hann var seinn til að gifta sig. Afi var eitt sinn spurðum hvort elsti sonur hans ætlaði að pipra og  svaraði: „Ég er ekki vonnlaus meðan heimasætan í Múla er ólofuð.“

Heimasætan í Múla, mamma, var húsmóðir þar því Halldóra amma var heilsulaus.  Þess vegna dróst giftingin. Þegar pabbi var 38 ára og hún 27 neitaði hann að bíða lengur og flutti brúði sína niður eftir ásamt föður hennar og gamalli vinnukonu sem hann sá fyrir. Þá fór Halldóra suður á hjúkrunarheimili, en langamma til himna. Foreldrar mínir voru svo smábændur á fjórðungi Sands frá 1948-1960 en þá fluttum við suður.

Kannt einhverjar góðar sögur af foreldrum þínum.

Unga sveitastúlkan

Maður kann ekki sögur af foreldrum. Jú mamma var félagslynd, spilaði á orgel,  dansaði og var í kór og kvenfélagi. Henni fannst afskekkt á Sandi og pabbi lítill dansmaður. Hún hafði gaman af gestakomum og bauðst gjarna til að hýsa farskólann eftir að þau byggðu sjálf hús. Ekki veit ég hvernig hún kom öllu fyrir, ekkert barnaherbergi  í húsinu og hennar börn 7. Ef liðið fór í feluleik í fataskápunum eða drottningaleik með sparifötin sagði mamma bara:  „Skemmið  ekki hattinn hans Bjartmars.“  Einu sinni man ég þó að hún reiddist. Þá stálum við  lökunum af snúrunum í hláku og myrkri til að fara í draugaleik. Hún var ekki kát með að þvo þau aftur á brettinu. Annars stjórnaði mamma oft leikjum og lét syngja til að hafa hemil á skrílnum en pabbi tók að sér að svæfa smábörn. Hann svæfði með þulum um ókindur og drauga sem hann kvað, þó hann væri  laglaus. Það var engin hætta á að við dyttum niður um göt á torfþökum eða gjótur í hrauninu því þar sat ókindin

Nú flytur þú í burtu og ert hálfgerður hippi?

Já. Pabbi var félagsmálakall, lengi sveitarstjórnarmaður og komst svo á þing. Þá fluttum við suður á fermingarárinu mínu svo ég missti seinasta árið í farskólanum. Þá var skyldan tvö ár í gaggó og að þeim loknum vildi ég hætta. Ég var sveitóin í bekknum og aldrei með. En pabbi neitaði og sendi mig í Laugar. Með gagnfræðaprófið fór ég í Myndlista og handíðaskólann og gerði myndmenntakennslu að ævistarfi. Það var í tísku í þeim skóla að vera öðruvísi og það  kom sér vel fyrir mig.

Man ég ekki rétt að þú bjóst í Danmörku?

1970
1970

Ég gifti mig 1970 og bóndinn þurfti að ljúka tækninámi í Kaupmannahöfn. Þar var hippalífið komið í hámark. Þar töluðu allir um frelsi og nægjusemi. Ekkert var hallærislegra en fégræðgi, kaupæði og hátíska. Það fór enginn í klippingu og ég gat saumað rósir yfir götin á gallabuxunum endalaust. Þetta var skínandi. Ódýrt og gaman. Svo var áróður fyrir frjálsum ástum og frjálsu hassi. Mér var sama. Ég eignaðist fljótlega son og tók því engan þátt í neinu, en eignaðist samt afganistanvesti úr sauðargæru. Þessi lífsstíll var hugsjón. Svipað og núna þegar fólk kaupir notað og berst á móti sóun. En bissnissinn sigraði þessa bylgju auðvitað fljótt.

 

Þið flytjið norður 1982.   

Ég skildi við fyrri manninn minn þegar við komum heim frá Danmörku. Sigurður Ólafsson, málari seinni maðurinn minn er frá Keflavík. Hann hafði verið í sveit sem krakki og hafði svona bændadraum. En þegar við komum var ómögulegt að fá hefðbundinn kvóta svo okkur var ráðlagt að prófa loðdýr. Það gekk ljómandi vel. En það er  ómögulegt að reka nokkuð á yfirdráttarlánum, sem þurfti fyrir fóðurkaupin. Flestir loðdýrabændur fóru á hausinn. Við gerðum það  ekki af því við unnum með búskapnum Ég kenndi, Siggi málaði . Svo vorum við með kálfa, tvær kýr, tvær kindur hænur, endur gæsir hund kött, kanínur og jurtatevinnslu. Eftir 12 ára hlaup en lítið kaup hættum við öllum aukastörfum nema hænsnunum og teframleiðslunni.Hún bar sig best af því fjárfesting var engin .

Hvað gerið þið núna?

Ég geri ekkert. Tevinnunni lauk nýlega. Siggi gefur hænsnunum, mokar  snjó á veturna, gerir við girðingar, sinnir æðarvarpi, heggur fallin tré því við auluðumst til að planta helling. Það er að mörgu að hyggja í sveit. Við veiðum silung , ræktum kartöflur og grænmeti og  tínum netin og plastið af sandinum sem rekur endalaust. Erum nýbúin að fara með kerrufarm í Stórutjarnir og fórum með  fjóra í fyrra.

Og gleymum ekki hobbíunum. Hagyrðiingafélaginu, Harmonikufélaginu, vefstólnum mínum og rennibekknum hans Sigga. Okkur leiðist aldrei.

Siggi og Fía

Ég þakka Fíu kærlega fyrir viðtalið. Það er von nýs staðarhaldara að mega heimsækja sem flesta bæi og fá viðtöl við fólk og forvitnast um hagi þess og forfeðra. Vonandi tekur fólk því vel þegar ég hringi.

Ásta Svavarsdóttir

 

Sandur