Fasteignir sveitarfélagsins 1 grein

0
497

Mig langar til að taka til umræðu nokkrar fasteignir sveitarfélagsins sem mætti huga að með breytt hlutverk. (fávís kjósandi ) Sveitarfélagið keypti iðnaðarhúsnæði og breytti því í slökkvistöð. Þar tel ég að hafi verið gerð alvarleg mistök, þar hafði verið til staðar viðgerðarverkstæði  sem er bráðnauðsynleg starfssemi í öllum sveitarfélögum og söknum við mörg þeirrar starfssemi sem þar fór fram. Nú þarf maður að aka til Húsavíkur eður Akureyrar eftir þeirri þjónustu sem þar var að ég tali nú ekki um bændur. Ég vil meina að sveitarstjórn hefði átt að auglýsa eftir viðgerðarmanni með búsetu í sveitarfélaginu og hjálpa honum í byrjun með niðurgreidda aðstöðu-skatttekjur hefðu komið á móti síðar meir og jafnvel vinna fyrir fleiri í heimasveit

Sveitarfélagið á stórt geymslurými í Lautarbrakkanum -nema þar séu geymd verðmæti sveitarfélagsins eins og t.d. gullforði og svikin loforð. Hefði ekki verð hægt að koma slökkviliðinu fyrir þar og spara sér fjárfestingu í iðnaðarhúsnæðinu. Mitt álit er það að iðngarðar séu verðmæti í hverju samfélagi og sýni drifkraft þess í uppbyggingu.

Fyrir nokkrum árum safnaði ég undirskriftum um eignarhald sveitarfélagsins á íbúðum fyrir aldraða hér í Þingeyjarsveit. Draumsýn mín var að aðstoða t.d. aldraða einstaklinga sem væru að hætta búskap svo þeir gætu fengið að dvelja áfram í sinni heimasveit-sem gæti kannski orðið til þess að ungt fólk sem hefði áhuga á búskap gæti fengið ábúð á jörðum. Þetta var hugsað hjá mér sem Búsetuform, þannig að fólk þyrfti að leggja fram ákveðna upphæð til búsetu og greiddi síðan leigu fyrir hvern mánuð en væri öruggt í sínu húsnæði. Ekkert heyrði ég frá sveitarstjórn um málið þó að ég skilaði til þeirra um 50 undirskriftum-sjálfsagt ekki einu sinni bókað.

Ég ætla ekki að gefast upp í þessu máli og velti því upp annarri tillögu, sem sagt þeirri að við breytum grunnskólanum á Laugum í 6 litlar íbúðir með td. utanályggjandi lyftu. Við gröfum frá húsinu að vestanverðu og nýtum núverandi kjallara undir tvær íbúðir á jarðhæð og hvora hæð undir tvær íbúðir. Úr verður 6 íbúða hús. Þarna gætu aldraðir jafnt sem ungt fólk sem er að byrja búskap búið í sátt og samlyndi. Hægt er að huga að því að bjóða verkið út til verktaka og létta sveitarfélaginu fjárfestinguna-lán eru frekar auðsótt í íbúðir byggðar á félagslegum forsendum.

Ég veit að að ég hugsa í þessu tilfelli sem Reykdælingur, en sveitarfélagið á fleiri eignir sem hægt er horfa til í sama tilgangi. Við þurfum að fjölga íbúum í sveitarfélaginu og þá einkum ungu fólki. Ungt fólk er kjölfesta hvers sveitarfélags.

Við eigum jú tvo aðra skóla sem þarf að fara taka ákvörðun um til framtíðar. Þar á ég við Stórutjarnir og Hafralækjarskóla. Ég legg til að ráða á vegum sveitarfélagsins ráðgjafafyrirtæki og koma með tillögur til framtíðar litið.

Ekki treysti ég á þor núverandi sveitarstjórnarmanna að hreyfa við jafn eldfimu máli, en ákvörðunar er þörf. ekki á morgun heldur strax. Það er ekki eftir neinu að bíða. Svartalogn heitir það fyrir vestan og svo brestur hann á.

Örn Byström skrifar frá Einarsstöðum.