Farsi – Hvernig Þingeyjarskóli var sameinaður í eina starfsstöð

0
193

Óendanlegur farsi (gerist í núinu í sandkassanum Kjarna) Höfundur: Bergljót Hallgrímsdóttir

Jæja krakkar þá eru það skólamálin og ekkert hangs.
Æi, nei!
Úff! Þurfum við endilega að hugsa um þau?
Nenn‘ess‘ekki!

Bergljót Hallgrímsdóttir
Bergljót Hallgrímsdóttir

Kommon! Hvað er að ykkur, til hvers hélduð þið eiginlega að þið væruð að koma hérna í sandkassann?
Það er ekkert gaman að leika með þessi skólamál lengur!
Nei! Við viljum fá annað dót!
Já! Við viljum fá ljósleiðara!
Halló! Hvað er í gangi. Þið þekkið reglurnar. Fyrst verðum við að taka til eftir okkur, áður en við getum fengið nýtt dót.
Oh! Þurfum við þá að fara að taka til í þessum fj…… skólamálum?
Uss, talaðu fallega!
Ég held nú það elskurnar mínar!
Ó, hvað ég vildi að jólin væru komin.
Já, já en fyrst þurfum við að laga til, þú vissir það nú alveg áður en þú komst í sandkassann, ha?
Já, en það voru bara þið sem voruð að leika með þetta mál, ekki við.
Viljiði hætta þessu karpi og halda áfram, við erum öll saman í þessu, ha?
Já, já.

Jæja, staðan er þessi: Við erum með þrjár skýrslur, og eina könnun og hvað eigum við svo að gera með það?
Nú, auðvitað það sama og við gerðum með allar hinar skýrslurnar, stingum þeim bara undir stól.
Já, mér líst vel á það, þá þurfum við ekkert að gera meira og getum bara farið heim.
Ónei, ekki í boði, við göngum almennilega frá eftir okkur, munið þið ekki eftir sálfræðingnum?
Ha, ha, við plötuðum hann laglega maður lifandi! Létum hann halda að vandmálið væri þau þarna í skólanum.
Þetta er ekkert fyndið, veistu ekki hvað þetta plat er búið að kosta okkur – og á eftir að kosta okkur?
Ljúkum þessu bara af. Ég fyrir mitt leyti legg til að skólinn verði í framtíðinni sameinaður á …
Uss, þei, þei, það eru einhverjir þarna utan við … (kíkir yfir brúnina á sandkassanum), jú!
Svei mér þá, jólasveinarnir eru komnir til byggða!
Strax!? Aðventan er rétt byrjuð, nei það getur ekki verið.
Nú hverjir eru þetta þá?
Þetta eru líklega jólasveinarnir, þeir hafa bara ruglast útaf eldgosinu og haldið að það væru jólaljósin.

Nei bíddu nú við, þessir eru fleiri en einn og átta, þeir eru tíu, ellefu, tólf og já, fleiri sýnist mér, ég kann bara ekki að telja meira. Voru jólasveinarnir ekki bara níu?
Það er nú bara eftir því hver segir frá, ég hef heyrt að þeir séu miklu fleiri og að Grýla gamla hafi átt krakka með fleirum en Leppalúða.
Já og hvernig var það svo með hann sjálfan karlinn, átti hann ekki í erfiðleikum með að hemja  á sér lókinn eins og bændur og prestar og soddan lið í gamla daga?
Sussu, sussu, þetta er nú ekkert sandkassahjal lengur, gættu orða þinna!
Uss, hlustið – þeir eru eitthvað að segja.
Nei – þeir eru með spjöld með stöfum, verst að kunna ekki að lesa.
Ég kann að lesa!
Jæja hvað stendur þá þarna á gula spjaldinu?
Sssssammm-staaaða!
Ha hvað þýðir það?
Bara samstaða með okkur.
Nei og hvað stendur þarna á rauða spjaldinu?
Ekki leggja niður okkar sk-skóóla – bara hinna.
En þessu?
Ssspurðuð ekki rétt-u sppurrninganna.
Voðalegt bull er þetta, ég held að þetta séu ekki jólasveinarnir.
Nei og kannski eru þetta einhverjir sem eru hættulegir – er ekki alltaf verið að tala um einhverja soleiðis hópa – þessir eru nú fleiri en níu.
Nei, hættu nú alveg!
Höldum áfram og hugsum ekki meira um þá, hvert vorum við komin?
Já að við leggjum til að skólinn verði í framtíðinni sameinaður á …
Nei það varst þú sem lagðir þetta til, ekki ég
Við erum ekkert að leggja neitt til, það eruð þið.
Nú, einhver verður á endanum að gera eitthvað!
Já en bara ekki þetta!
Nú! Hvað þá, komdu þá með eitthvað betra.
Ha – ég, nehei!

(Bankað á sandkassabrúnina)
Hver er þar!
Það er nú bara ég frá Snjalllausnum ehf, þið munið eftir mér? Má ég koma inn fyrir?
(allir) Nei takk!!! við höfum fengið nóg af ykkar líkum. Við erum búin að vera með adhdskýrslu, skráðbarðskýrslu, hólastofuskýrslu og ég veit ekki hvað og hvað, við erum sko búin að fá ógeð á ráðgjöfum!
Já, og við erum á hvínandi kúpunni og eigum varla fyrir salti í hafragrautinn, allt útaf endalausum peningaaustri í asnalegar og gagnslausar skýrslur og kannanir. Hypjaðu þig!
Hey, er ekki bannað að skilja útundan í þessum sandkassa?
Juú, jæja komdu þá.

Hm! Ég var hérna nálægt og heyrði að þið eigið í vanda og langaði að bjóða fram þjónustu mína til að höggva á hnútinn sem mér heyrist að málin séu komin í hjá ykkur. Og eins og þið munið eru mín ráð öðruvísi en hinna, þau kosta ekki neitt og þau eru snjöll.
Ja, svei, ekki fannst okkur það nú seinast.
Þið voruð heldur ekki að fara eftir þeim. Í stað þess að halda ykkar striki fóruð þið í alls konar rugl með skýrslur og peninga en samt mátti enginn segja neitt um eitt né neitt, af því að þið ætluðuð að ákveða sjálf en svo þorið þið sjálf aldrei að ákveða neitt eða segja eitt né neitt.
(allir) Það er ekki satt!!!
Nei, er það ekki, ég heyrði nú alveg í ykkur áðan en viljiði fá snjalllausn?
(Löng þögn) Ja, það skaðar svosem ekki að heyra, fyrst það kostar ekkert.
Já sko. Til þess að þið þurfið ekki að taka ákvörðun sjálf um á hvorum staðnum skólinn á að vera, þá skuluð þið nota gamla lagið.
Ha, hvað er nú það.
Þið bjóðið til hólmgöngu. Þið fáið til dæmis einhvern þarna úti (bendir) til þess að skora hina á hólm og sá sem vinnur fær að hafa allan skólann hjá sér í framtíðinni.
Ertu vitlaus, heldurðu að einhver þarna fáist í þetta?
Það kæmi mér hreint ekki á óvart.
En hinir?
Tja, ég veit ekki, en reglurnar eru þannig að ef sá sem skorað er á mætir ekki, þá vinnur hinn. Þetta er ofureinfalt og þið eruð laus við að taka ákvörðun, allt leysist af sjálfu sér – svo er þetta líka svo þjóðlegt, það er nú svo mikið í tísku núna.
Nei, við megum ekki leika með byssur eða sverð eða svoleiðis dót.
Hver var að tala um það, hér er nóg af skóflum og fötum og sandi, notiði bara það sem hendi er næst. Þetta gæti bara orðið skemmtilegt og þið eigið nú svona hólma eða eyju. Gangi ykkur svo bara vel með þetta. (fer)
Ja hérna hér!
Þetta er nú það vitlausasta sem fram hefur komið í þessu blessaða skólamáli og er þá mikið sagt.
Er það? Af hverju var okkur ekki búið að detta þetta í hug fyrir löngu síðan?
Er ekki allt í lagi með þig? Var ekki meiningin að setja í forgang að hagræða í rekstri og gera betri skóla fyrir börnin, bæði aðstöðulega, námslega og félagslega?
Iss, það eru nú allir búnir að gleyma því! Höfum við einhver betri ráð?
Na-ei, kannski ekki.
Krakkar, samþykkjum þetta bara, mig er farið að langa heim.
Já og mig líka.
Líka mig.
(handaupplyftingar)
Gott hjá ykkur, takk fyrir snjalllausnina, nú reddast þetta. Förum heim.

(Tjaldið fellur)