ESA – Ríkisaðstoð: Tæpra 4 milljarða króna fjárfestingaraðstoð til PCC samþykkt

0
135

Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, samþykkti í dag ríkisaðstoð til fyrirtækisins PCC BakkiSilicon hf. vegna byggingar kísilmálmverksmiðju á Bakka við Húsavík. Þann 26 febrúar féllst ESA einnig á þá fyrirætlan ríkissjóðs og Norðurþings að veita fé til uppbyggingar iðnaðarhafnar á Húsavík og hefur því ESA fallist á báðar fyrirgreiðslur ríkisstjóðs og Norðurþings vegna uppbyggingu iðnar við Bakka á Húsavík.

Bakki-Bakkahöfði.
Bakki-Bakkahöfði.

Í úrskurði ESA segir eftirfarandi.

Ríkissjóður Íslands og sveitarfélagið Norðurþing munu veita PCC aðstoðina í formi beins fjárstyrks til lóðarframkvæmda, afslátta á tekjuskatti, fasteignaskatti og hafnargjöldum og niðurfellingu ýmissa skatta og gjalda til allt að 10 ára.

 

 

Ríkisaðstoðin verður veitt í tengslum við byggingu verksmiðju með um 33.000 tonna afkastagetu. Verksmiðjan verður reist á árunum 2014-2016 og fullbúin mun hún veita 120 manns atvinnu.

‚‚Ríkisaðstoðin stuðlar að atvinnusköpun og fjölbreytni í atvinnulífi á svæði þar sem efnahagslíf hefur verið hnignandi og vegur að hluta upp á móti aukakostnaði sem fylgir þessari staðsetningu. Vonandi mun fjárfestingin snúa þróuninni við og fleiri verkefni að Bakka fylgja í kjölfarið“, segir Oda Helen Sletnes, forseti ESA.

Hafa íslensk yfirvöld skuldbundið sig til þess að gera ESA árlega sérstaka grein fyrir veittri ríkisaðstoð til PCC. Þegar ríkisaðstoðin hefur náð leyfilegu hámarki, verður henni hætt, en þó aldrei síðar en 27. september 2027.

Alþingi Íslendinga veitti heimild sína til ríkisaðstoðarinnar með lögum nr. 52/2013, með fyrirvara um samþykki ESA. Íslensk yfirvöld tilkynntu ESA um ríkisaðstoðina í júlí 2013 og höfðu í febrúar 2014 veitt ESA þær upplýsingar sem nauðsynlegar voru fyrir stofnunina til að taka ákvörðun.

Verksmiðjan er orkufrek og hyggst PCC kaupa raforku af Landsvirkjun. Samningar þar að lútandi hafa ekki verið tilkynntir til ESA en íslensk yfirvöld hafa gefið til kynna að það muni þau gera. Orkusölusamningar hafa því enn ekki hlotið samþykki ESA.

Í febrúar síðastliðnum samþykkti ESA ríkisaðstoð til Hafnarsjóðs Norðurþings vegna byggingar iðnaðarhafnar í Húsavík. PCC verður meðal notenda hafnarinnar.

 

Bergur Elías
Begur Elías Ágústsson

“Við tókum eitt stórt skref frammávið með þessum úrskurði frá því í dag, til að ná settu markmiði og ef allt gengur vel mun framkvæmdin hafa veruleg áhrif á íbúa okkar svæðis í atvinnulegu tilliti”, sagði Bergur Elías Ágústsson bæjarstjóri Norðurþings í spjalli við 641.is rétt áðan þegar úrskurðurinn lá fyrir.

Ríkisaðstoð vegna iðnaðarhafnar á Húsavík samþykkt