Er stórslys í uppsiglingu?

0
257

Mig langar að deila með ykkur  því sem mest hefur truflað mig síðustu daga og búinn að fá óvanalega margar fréttir sem hafa komið mér á óvart. Mögulega fylgist ég ekki nógu vel með því sem gerist í sveitinni og vera má að almenningur sé hér betur upplýstur  en ég.

Friðgeir Sigtryggsson
Friðgeir Sigtryggsson

Þar sem ég er  þó ekki viss um það spyr ég hvort fólki sé kunnugut um stofnun nýlegs fyrirtækis sem heitir Aurora Observatory sem er sjálfseignarstofnun og hefur aðsetur að Kjarna á Laugum. Í gær rakst ég á frétt á mbl.is um málið en hafði því miður misst af hanni þegar hún var birt 8. Maí sl.

Í stjórn Aurora eru Ólína Arnkelsdóttir formaður, (fulltrúi Atvinnueflingar Þingeyarsveitar) Halldór Jóhannsson varaformaður ( fulltrúi Artic Portal ehf), Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson ritari (fulltrúi Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar), Erlingur Teitsson meðstjórnandi (fulltrúi Kjarna ehf) og Reinhard Reynisson meðstjórnandi  og prókúruhafi (fulltrúi Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga).

Markmið fyrirtækisins er að koma á fót rannsóknarsetri sem einbeitir sér að rannsóknum á norðurljósum, loftslagi og lífríki í samstarfi kínverskra og íslenskra aðila. Ráðstafa skal fjármunum sjálfseignarstofnunarinnar þannig að keypt og eða leigð verði fasteign undir rannsóknarsetur og aðbúnað og rekstur tengdan því.

Það sem truflar mig mest í þessu sambandi er að þessir aðilar og einstaklingar hér á svæðinu séu búnir að stofna fyrirtæki með Halldóri Jóhannssyni.  „Afrek“ Halldórs hafa verið talsvert í fréttum síðustu ár þótt mér hafi stundum þótt  RUV gera þeim lítil skil, en flest virðast þau tengjast einhvers konar sölu á íslensku landi eða öðrum auðlindum til erlendra aðila.

Ég hvet þá lesendur sem ekki hafa mikið heyrt af „afrekaskrá“ Halldórs að kynna sér þessa samantekt hér.

Mér finnst dapurlegt að framlag Atvinnueflingar og Atvinnuþróunarfyrirtækja hér á svæðinu skuli vera að vinna að samstarfi sveitarfélagsins og þessa sama Halldórs Jóhannssonar.

Enn dapurlegra finnst mér að sveitarstjórn  og þá ekki síður Sparisjóðurinn skuli virkilega vilja taka þátt stofnun fyrirtækis með Halldóri.

Þó ég ætli ekki hér að fara mörgum orðum um Þorvald Lúðvík Sigurjónsson fyrrverandi bankamann deili ég áhyggjum og undrun með mörgum Eyfirðingum varðandi forsvars hann hjá Atvinnuþróunarfélagi  Eyfirðinga. Eins og margir eflaust muna var nafn hanns nokkuð oft nefnt í kjölfar bankahrunsins.

Mér var sagt að eðlilegt hefði þótt að Halldór væri í stjórn Auroru þar sem hann hefði komið með þessa hugmynd.  Mín skoðun er sú að aldrei hefði átt að ræða hugmyndina eingöngu vegna þess að Halldór kom með hana.

Er Halldór kannski annars  búinn að stofna nýtt ráðgjafarfyrirtæki til að selja Auroru ráðgjöf?

Ég hef ekkert séð um eða frétt af, að búið sé að ganga frá samningum við kínversku aðilana sem talað er um í tilgangi félagsins, en framkvæmdir eru þó hafnar á Kárhóli í Reykjadal þar sem unnið er að því að koma fyrir tveimur gámum sem sagðir eru innihalda tæki til rannsókna á norðurljósum.

Reikna verður með að fyrirtækið sem þar er að hefja starfsemi sé komið með tilskilin leyfi til þess rekstrar þótt ekki  virðast auðfundin nýleg  leyfi til rekstrar eða framkvæmda á Kárhóli.

Ég hvet ykkur sveitungar góðir til að segja skoðun ykkar á þessu einkennilega máli. Erum við virkilega svo illa stödd að við þurfum að leita á þessi mið til uppbyggingar atvinnu í annars okkar góða sveitarfélagi?

Ef nokkur kostur er þarf að mínu viti að stöðva þetta strax áður en stórslys hlýst af.

Friðgeir Sigtryggsson
Breiðumýri