Enn óvissa um dýralæknaþjónustu í Þingeyjarsýslu

0
96

Eins og greint var frá hér á 641.is í desember sl. rann út þann 31. október 2014, þjónustusamningur Matvælastofnunar(MAST) við Vigni Sigurólason dýralækni á Húsavík um almenna dýralæknisþjónustu í Þingeyjarumdæmi sem hafði verið í gildi sl. þrjú ár. MAST bauð Vigni nýjan þjónustusamning, en gegn 50% lægri þóknun en verið hafði og 50% lægri þóknun en á öðrum þjónustusvæðum. Vignir hafnaði þessu boði.

Kýr í grænfóðri
Kýr í grænfóðri

 

Í spjalli við Vigni Sigurólason dýralækni nýlega kom fram að enn ríkir mikil óvissa um almenna dýralæknisþjónustu í Þingeyjarsýslu þar sem engin þjónustusamningur er í gildi við dýralækni til að sinna almennum dýralækningum í sýslunni og staðan í þessum efnum er því grafalvarleg.

 

“Það var gert sérstakt samkomulag milli mín og MAST um að sinna almennum dýralækningum út desembermánuð 2014 og á meðan átti að finna varanlega lausn á dýralæknismálum í sýslunni. Ekkert hefur hins vegar komið út úr þeirri vinnu ennþá og því er staðan eins og hún er núna”, sagði Vignir. Það er því enginn dýralæknir að störfum sem sinnir almennum dýralækningum á dagvöktum í Þingeyjarsýslu nú um stundir.

Vignir Sigurólason
Vignir Sigurólason

“Ég hef verið á íhuga mína stöðu og það getur alveg farið svo að ég hætti störfum sem dýralæknir og snúi mér að einhverju öðru, ef ekki leysist úr þessum málum fljótlega”,sagði Vignir við 641.is.

Samkvæmt heimildum 641.is var búið er að eyrnamerkja MAST ákveðnum fjárheimildum af fjárlögum og ekki hægt að auka þær fjárheimildir núna til þess að hægt sé að bjóða svipaðan þjónustusamningu og verið hafði fyrir almennar dýralækningar í Þingeyjarsýslu. Það mun bíða næstu fjárlaga eftir tæpt ár.

 

Vakthafandi dýralæknar sem sinna eiga útköllum í Þingeyjarsýslu á kvöldin og um helgar eru samkvæmt vef Mast fyrir janúarmánuð 2015, Elín Backman dýralæknir (s.8638914) sem er með kvöld og næturvaktir þriðju hverja viku og þriðju hverja helgi. Bárður Guðmundsson dýralæknir (s.8630868) sem er á helgarvakt þriðju hverja helgi og Sylvía Windmann dýralæknir í Vopnafirði (s.892 2734) sem á að sinna því sem út af stendur fyrir utan dagvinnutíma. Elín og Bárður búa bæði á Húsavík en Sylvía býr í Vopnafirði.