Enn mikil virkni í norðvestanverðum Vatnajökli

0
72

Enn er mikil virkni í norðvestanverðum Vatnajökli. Frá miðnætti hafa mælst um 250 jarðskjálftar í sjálfvirka kerfinu, flestir á því svæði. Virknin er mest austan við Bárðarbungu og við jökuljaðar Dyngjujökuls í grennd við Kistufell. Frá þessu segir á vef veðurstofunnar í morgun.

Mynd af vef Veðurstofunnar
Mynd af vef Veðurstofunnar

Klukkan 02:37 (18. ágúst) varð skjálfti við Kistufell, 3,7 að stærð, og er það stærsti skjálftinn sem orðið hefur í þessari hrinu hingað til. Tvær tilkynningar bárust frá Akureyri og ein úr Hafnarfirði um að skjálftinn hefði fundist. Engin merki sjást, enn sem komið er, um gos- eða hlaupóróa .

Á vefnum er kort sem sýnir virkni í Vatnajökli síðustu 48 tíma (óyfirfarnar frumniðurstöður) en myndin hér undir sýnir þá skjálfta sem höfðu verið yfirfarnir á miðnætti aðfaranótt 18. ágúst 2014.