Enn fleira fé finnst á lífi

0
352

Björgunarsveitarmenn frá Dagrenningu á Hvolsvelli aðstoðuðu bændur og aðra björgunarsveitarmenn við að leita að, moka upp og smala fé sem fennti fyrir 20 dögum síðan á Þeistareykjum um nýliðna helgi. Dagrenningarmenn fundu rúmlega 40 kindur á lífi og margar hverjar í ótrúlega góðu ástandi, eins og meðfylgjandi mynd sýnir, sem Þorsteinn Jónsson formaður Dagrenningar tók.

Þessar kindur fundu Dagrenningarmenn á Þeistareykjum um helgina.
Mynd: Þorsteinn Jónsson.

 

 

 

 

 

 

 

 

Að sögn Þorsteins gekk nokkuð vel að finna fé á svæðinu sem þeir leituðu á og var meirihlutinn af því fé þeir fundu enn á lífi. Á flestum stöðunum þar sem fé fannst hafði snjórinn bráðnað ofan af þeim og því auðvelt að bjarga þeim upp úr fönninni. Í einhverjum tilfellum heyrðu þeir jarmað og gengu þá á jarmið. Snjóflóðastikur voru þá notaðar til þess að finna féð í fönninni og kindurnar síðan mokaðar upp. Tveir staðkunnugir heimamenn fylgdu Dagrenningarmönnum og var leitarsvæðið þeirra norðan við Gæsafjöll, í og við Gjástykki. Þorsteinn og hans menn gistu í Stórutjarnaskóla og létu þeir vel af aðstöðunni þar.

Dagrenningarmenn hafa haft í nóg að snúast undanfarin ár. Tvö eldgos hafa dunið yfir á þeirra heimasvæði og hafa björgunarsveitir ma. af norðurlandi komið þeim til aðstoðar. Dagrenningarmenn voru því ánægðir með að geta endurgoldið greiðann nú, með því að aðstoða björgunarsveitir í Þingeyjarsýslu núna.

Dagrenning Hv0lsvelli á Facebook þar sem sjá má fleiri myndir.