Enn að gefnu tilefni

Helgi Héðinsson skrifar

0
1338

Undanfarnar vikur hefur umræða um fjármálastofnanir verið áberandi. Ekki er að undra enda um að ræða mjög stór og öflug fyrirtæki sem skipta hag landsmanna verulegu máli. Ekki þarf að fjölyrða um þann storm sem stendur nú um stóru bankana, einkavæðingu þeirra og eignarhaldi. Í kjölfarið hefur fjöldi fólks leitað til mín með það fyrir augum að fá ráðleggingar um við hverja af fjármálastofnunum landsins sé skynsamlegt og forsvaranlegt að eiga viðskipti.

Svarið við því er einfalt en í þessum pistli ætla ég að gera tilraun til að útskýra hvers vegna hag þínum er best borgið í Sparisjóði Suður-Þingeyinga.

Sparisjóður Suður-Þingeyinga varð til úr fimm sparisjóðum í Suður-Þingeyjarsýslu en sá elsti þeirra, Sparisjóður Kinnunga, var stofnaður fyrir vel ríflega öld eða árið 1889. Sparisjóðurinn er sjálfseignarstofnun sem hefur það hlutverk að stunda sjálfbæra svæðisbundna fjármálastarfsemi á grundvelli samfélagslegrar ábyrgðar. Markmiðið með starfseminni er að standa vörð um og þróa atvinnulíf, mannlíf og velferð svæðisins. Bundið er í lög um fjármálafyrirtæki að Sparisjóðir skulu ráðstafa að lágmarki 5% af hagnaði liðins árs fyrir skatt til samfélagslegra verkefna á starfssvæði sínu, með öðrum orðum þá er bundið í lög að Sparisjóðurinn sinnir myndarlega samfélagslegum verkefnum.

Eins og áður sagði á Sparisjóður Suður-Þingeyinga sér langa og farsæla sögu en Sparisjóðurinn stóð af sér áhrif falls bankanna haustið 2008 og þarfnaðist ekki eiginfjárframlags úr ríkissjóði. Að miklu leiti má þakka það varfærinni stefnu sjóðsins og þeim gildum sem þeir sem að sjóðnum koma starfa eftir.

Eignarhald sjóðsins er opið og gagnsætt en ábyrgðarmenn sjóðsins, stofnfjáreigendur, eru um 260. Að mestu einstaklingar í Þingeyjarsýslum en einnig nokkur fyrirtæki og fáeinir einstaklingar utan héraðs.

Fjármálastofnun fyrir fólkið en ekki öfugt

Lengi mætti skrifa um sögu, ágæti og þann myndarskap sem einkennt hefur starf Sparisjóðs Suður-Þingeyinga en þegar betur er að gáð er ekkert þeirra atriða sem nefnd hafa verið megin ástæða þess að ég stunda mín viðskipti við Sparisjóðinn. Ástæða þess er sú frábæra þjónusta sem starfsfólk Sparisjóðsins býður uppá og það einstaka viðmót sem mætir manni við úrlausn hvers konar viðfangsefna. Auk þess að vera samkeppnishæfur hvað varðar kjör þá fer ekki á milli mála að persónulegri og einlægari fjármálastofnun er vandfundin. Með öðrum orðum þá starfar Sparisjóðurinn af fagmennsku og einlægni fyrir fólk eins og þig og mig.

Helgi Héðinsson stjórnarmaður í Sparisjóði Suður – Þingeyinga