Engar ólöglegar framkvæmdir í gangi á Kárhóli að sögn skipulagsfulltrúa

0
146

“Það eru engar ólöglegar framkvæmdir í gangi á Kárhóli í Reykjadal. Búið var að gefa út stöðuleyfi fyrir tvo gáma til eins árs og þær framkvæmdir sem eru í gangi á Kárhóli tengjast þeim” sagði Bjarni Reykjalín skipulags og byggingafulltrúi Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar í spjalli við 641.is í dag.  Efasemdir höfðu vaknað um að framkvæmdirnar væru löglegar þar sem hvergi var hægt að finna byggingaleyfi fyrir einu eða neinu á Kárhóli, í fundargerðum skipulags og byggingarnefndar á heimasíðu Þingeyjarsveitar  Útgáfa stöðuleyfis þarf ekki að fara fyrir bygginga og skipulagsnefnd til umsagnar og þess vegna hefur ekkert byggingaleyfi verið gefið út vegna framkvæmdanna á Kárhóli. Stöðuleyfi dugar að sögn Bjarna.

Á myndinni sést að búið er að rífa þakið af öðrum votheysturninum á Kárhóli.
Á myndinni sést að búið er að rífa þakið af öðrum votheysturninum á Kárhóli.

Eins og áður segir stóð til að nota umrædda gáma sem búið var að flytja í Lauga og koma þeim upp fyrir ofan og á bak við gömlu útihúsin á Kárhóli. Vegna bleytu reyndist ekki unnt að koma gámunum á staðinn. Þá var gripið til þess ráðs að nota annan votheysturninn sem undirstöðu fyrir lítinn skúr.

Nú er búið að rífa þakið af öðrum votheysturninum á Kárhóli og verið er að smíða pall í staðinn. Á pallinn á svo að bygga lítinn skúr sem hlaðinn verður myndavélum til norðurljósarannsókna samkvæmt heimildum 641.is.

2009-07-05 17.00.05
Þessa gáma átti upphaflega að setja upp á Kárhóli.

Að sögn Bjarna Reykjalín gaf hann út stöðuleyfi til eins árs vegna smíði pallsins og skúrsins í dag.

Samkvæmt óstaðfestum heimildum 641.is eru samningar um leigu á Kárhóli á lokastigi til Kínverska aðila sem ætla sér að stunda rannsóknir á norðurljósunum og byggja þar upp rannsóknarstöð og stóra gestastofu á næstu tveimur árum.